Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

1.400 milljónir aukalega í fæðingarorlof

10.11.2019 - 14:40
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fæðingarorlofssjóður fær á annan milljarð króna aukalega í fjárheimildir með fjáraukalagafrumvarpi sem lagt var fram á Alþingi í gær. Fjárveitingin er ætluð til að mæta útgjöldum umfram það sem gert hafði verið ráð fyrir á fjárlögum. Aukningin er fyrst og fremst rakin til þess að hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi hafa hækkað og þess að fleiri foreldrar fóru í fæðingarorlof en gert var ráð fyrir.

Að því er fram kemur í fjáraukalagafrumvarpinu jókst kostnaður vegna fæðingarorlofs um 1.400 milljónir króna. Fæðingarorlofssjóður fær þó ekki þá viðbótarupphæð heldur 1.120 milljónir króna. Ástæðan er sú að minna hefur verið greitt í fæðingarorlofsstyrki til foreldra utan vinnumarkaðar en ráð var fyrir gert. Þar eru útgjöldin 280 milljónir krónum lægri en heimild er fyrir á fjárlögum. Þau eru því lækkuð á móti.

Það er þó ekki aðeins svo að fleiri fari í fæðingarorlof en áður og að hámarksgreiðslur hafa hækkað heldur hefur dögum fólks í fæðingarorlofi líka fjölgað.