Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

140 rúm ónotuð í júlí vegna manneklu

24.06.2019 - 11:41
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Landspítalinn þarf að draga meira úr starfsemi sinni í sumar en síðustu ár. Hátt í 140 legurými verða lokuð mestan júlí. Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans segir að þetta sé að mestu leyti vegna manneklu og að sumarið verði krefjandi. Yfir hásumarið verða 83% legurýma spítalans opin. 

Að venju þarf Landspítalinn að draga úr starfsemi yfir sumarið, þ.e. skipulögðum aðgerðum og meðferðum. Í ár þarf að loka nokkuð fleiri legurýmum en áður í um þrjár vikur yfir sumarið, sérstaklega á lyflækningasviði.  

„Við höfum náð að manna betur á tilteknum sviðum sem skiptir okkur mjög miklu máli. Á skurðlækningasviði og flæðissviði, þar eru flestar öldrunardeildirnar hjá okkur,“ segir Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra Landspítala. „Hins vegar hefur ekki tekist að manna eins vel á lyflækningasviðinu. Heildarniðurstaðan er því sú að við erum með fleiri rými lokuð í ár heldur en í fyrra en þó í stuttan tíma.“

Skortur á hjúkrunarfræðingum vegur þungt, segir Páll í vikulegum forstjóra pistli. „Við erum alltaf að reyna að breyta ferlum og þess háttar til þess að áhrifin af þessu séu minni. Því miður er það þannig að okkur vantar hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða, þannig að þetta er niðurstaðan,“ segir Anna Sigrún jafnframt.

Í annarri og þriðju vikunni í júlí verður 133-137 legurýmum lokað. Á sama tíma í fyrra var um tuttugu færri rúmum lokað eða á bilinu 114-120, samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum. Lokanirnar dreifast nokkuð jafnt fyrir deildir spítalans. Þó er meira opið á flæðisviði og skurðlækningasviði en í fyrra.

Hlutfallslega verða rétt rúmlega 80% legurýma spítalans opin megnið af júlí. Strax fyrstu vikuna í ágúst eykst starfsemi spítalans á ný. Í fyrstu og annarri vikunni verða 80-100 legurými lokuð en í lok ágúst um 50. 

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV