Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

14 kærðir vegna aksturs utan vega

25.08.2019 - 19:26
Mynd: Umhverfisstofnun / Umhverfisstofnun
Það sem af er ári hefur Umhverfisstofnun kært fjórtán tilvik um utanvegaakstur. Teymisstjóri hjá Umhverfisstofnun segir að verið sé að skoða nokkur ferðaþjónustufyrirtæki sem noti utanvegaakstur í kynningarefni.

Landverðir afmá för eftir utanvegaakstur nánast daglega í Friðlandi að Fjallabaki. Þar hafa verið skráð um 100 tilvik utanvegaaksturs á þessu ári.  „Það er meiri vitundarvakning meðal almennings. Ég myndi segja að kærurnar væru svipaðar og undanfarin ár, ábendingar eru meira að koma frá almenningi en frá okkur,“ segir Hákon Ásgeirsson, teymisstjóri hjá Umhverfisstofnun.

Utanvegaakstur er bannaður samkvæmt lögum á Íslandi. Umhverfisstofnun hefur kært 14 um utanvegaakstur um allt land í ár. Að auki eru þrjú atvik til skoðunar.  Tvisvar hefur utanvegaakstur í fjörum á Suðurlandi verið kærður til lögreglu á þessu ári. Þá var utanvegaakstur í Soginu kærður til lögreglu, eins og fram kom í fréttum RÚV fyrr í sumar. Tvisvar á þessu ári hefur þurft að afmá för eftir utanvegaakstur við Helgafell á Reykjanesi. Tvisvar á Hengilssvæðinu. Auk þess sem kærumál hafa komið upp við Rauðhóla í Reykjavík, í Krýsuvík, Löngufjörur á Snæfellsnesi, á Skeiðarársandi, við Heklurætur og við Hnausapoll innan Friðlands að Fjallabaki.

Hákon segir að þá hafi borist ábendingar um villandi markaðssetningu hjá ferðaþjónustufyrirtækjum. „Þar sem að bílar eða buggy bílar eru sýndir í utanvegaakstri. Við erum að skoða mörg svoleiðis mál núna.  Við köllum þau inn til fundar og svo skoðum við hvort þetta séu kærumál eða ekki,“ segir hann jafnframt.

Samhliða auknum vinsældum fjallahjólreiða hafa ábendingar borist Umhverfisstofnun um illa farin svæði vegna þeirra. Hjólreiðar eru aðeins leyfðar á göngustígum og vegum.  „Ég get nefnt sem dæmi þá var hjólað niður Grænahrygg. Það tók landverði um 12 klukkutíma að afmá þessi för og það atvik fór í kæruferli,“ segir Hákon.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV