Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

14 ára stúlkur kærðar fyrir að plana níu morð

20.04.2019 - 06:35
epa07491497 An empty classroom at the primary school during a teachers' strike proclaimed by the Polish Teachers' Union (ZNP) and the Trade Unions' Forum (FZZ), in Warsaw, Poland, 08 April 2019. The ZNP and the FZZ started mass dispute procedures over wage-hike demands. In addition to a monthly pay rise of PLN 1,000 (EUR 232.5), unions also want more career openings for teachers and changes in performance assessment criteria.  EPA-EFE/Leszek Szymanski POLAND OUT
 Mynd: EPA
Tvær táningsstúlkur voru handteknar í Flórída í Bandaríkjunum í vikunni fyrir að leggja á ráðin um að myrða níu manns. Frá þessu er greint í fjölmiðlum vestra. Stúlkurnar, sem báðar eru 14 ára gamlar, voru handteknar eftir að kennari fann möppu sem geymdi ítarlega útfærðar fyrirætlanir þeirra um ódæðin.

Kennarinn er sagður hafa orðið vitni að því er þær leituðu möppunnar í mikilli geðshræringu og heyrt aðra þeirra segja við hina, að hún myndi „bara segja þeim að þetta sé hrekkur ef þau hringja í mig eða finna möppuna.“ Nokkru síðar fann kennarinn svo möppuna, sem var rækilega merkt „Einkaupplýsingar“ „Opnið ekki“ og „Áætlun 11/9.“

Í möppunni voru átta handskrifaðar síður, þar sem finna mátti lista með níu nöfnum og nákvæma áætlun um hvernig þær hygðust bera sig að við að verða sér úti um byssur, eyða sönnunargögnum og losa sig við líkin. Farið var yfir klæðaburð og fleira sem átti að koma í veg fyrir að þær þekktust og hindra að lífsýni úr þeim stöllum fyndust á vettvangi. Þannig var kveðið á um að neglur skyldu vera stuttar og að þær yrðu að passa að ekkert sæist í hár þeirra.

„Það skiptir engu þótt þær hafi haldið þetta eitthvert grín,“ segir Scott Dressel, talsmaður lögreglu í Highlands-sýslu. „Það er ekkert hægt að grínast með svona lagað. Þú grínast ekki með að myrða fólk.“ Stúlkurnar verða að líkindum báðar ákærðar fyrir samsæri um að fremja níu morð og þrjú mannrán. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV