138% munur á orkukostnaði

Mynd: Jóhannes Jónsson / ruv.is

138% munur á orkukostnaði

04.06.2015 - 09:40

Höfundar

Orkukostnaður heimila er ákaflega mismunandi eftir því hvar þau eru staðsett á landinu. Þar munar mest um húshitunarkostnaðinn, hvort kynt er með hitaveitu eða rafmagni. Minnst kostar árshitun um 85 þúsund en mest yfir 200 þúsund.

Orkustofnun hefur reiknað út kostnað við raforkunotkun og húshitun á sömu fasteigninni á nokkrum þéttbýlisstöðum og nokkrum stöðum í dreifbýli á ársgrundvelli. Þar kemur í ljós mikill munur bæði á húshitun og almennri notkun eftir því hvort heimili er í dreifbýli eða þéttbýli og svo staðsetningu á landinu. En í hverju liggur munurinn og stendur til að jafna hann?

Benedikt Guðmundsson verkefnisstjóri hjá Orkustofnun fer nákvæmlega yfir þessi mál í viðtali í Samfélaginu.

Margir þættir koma þarna við sögu, svo sem mismunandi útihiti og hitafall á heitu vatni en hvort tveggja getur aukið  magn þess vatns sem notað er og hitaveita er greidd eftir magni en ekki orku eins og rafmagn. „Ég hef lengi verið á þeirri skoðun að allar hitaveitur ættu að vera með svokallaða orkumæla þannig að fólk væri í raun að borga fyrir þá orku sem það fær inn í hús hjá sér“ segir Benedikt.

Mikill munur er á skatttekjum af raforkunotkun annarsvegar  og svo hitaveitu hinsvegar.

Benedikt segir að niðurgreiðslur séu að aukast og að á næsta ári verði dreifingin niðurgreidd að fullu en samkeppnishlutann, þ.e. söluþáttinn er ekki hægt að niðurgreiða. 

Samantekt Orkustofnunnar má sjá á vef Byggðastofnunnar.