Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

1300 óbreyttir borgarar féllu í loftárásum

27.06.2019 - 15:39
epa05001768 Syrians look at a destroyed field hospital in the rebel-held area of Douma, outskirts of Damascus, Syria, 29 October 2015. According to local activists more than 10 people died during an airstrike by forces loyal to the Syrian government.  EPA
 Mynd: EPA
Hernaðarbandalag undir stjórn Bandaríkjanna, sem barðist gegn hryðjuverkasamtökunum sem kenna sig við íslamskt ríki, felldi 1.319 óbreytta borgara í loftárásum í Írak og Sýrlandi frá 2014 til maíloka.

Bandalagið gerði 34.514 loftárásir frá ágúst 2014 til maí á þessu ári samkvæmt yfirlýsingu frá Bandaríkjaher. Þar féllu 1.319 óbreyttir borgarar en verið er að kanna 159 tilkynningar til viðbótar um mannfall í röðum almennra borgara.

Þetta eru mun færri en mannréttindasamtök, sem fylgst hafa með baráttunni gegn hryðjuverkasamtökunum og loftárásum gegn þeim, segja að hafi verið drepin. Þau telja að yfir átta þúsund manns hafi látist vegna hernaðaraðgerða bandalagsins.

Í skýrslu sem Amnesty International gaf út í apríl segir að loft- og stórskotaliðsárásir hafi dregið meira en 1.600 almenna borgara til dauða í fjögurra mánaða orrustu um borgina Raqqa sem var undir yfirráðum hryðjuverkamanna.