Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

130 konur myrtar af maka í Frakklandi á árinu

22.11.2019 - 19:50
Hundrað og þrjátíu konur hafa verið myrtar af maka í Frakklandi það sem af er ári. Aðgerðasinnar hafa gripið til sinna ráða til að vekja athygli á vandanum. 

 

Aðgerðasinnar hafa límt upp veggspjöld með slagorðum og líka með ýmsum nöfnum, þar á meðal Sylvia, Dalila og Julie á veggi í París í skjóli nætur síðustu vikur. Þetta eru nöfn þriggja kvenna sem hafa fallið fyrir hendi maka á árinu. Í hvert sinn sem slíkt morð er framið líma aðgerðasinnarnir upp veggspjald með nafni konunnar, ýmist á opinberar byggingar eða annars staðar í alfaraleið. 

Tíðni heimilisofbeldis í Frakklandi er með því hæsta sem þekkist í Evrópu. Þegar Emmuel Macron, forseti landsins, tók við embætti fyrir tveimur árum sagði hann að staðan væri skömm fyrir landið og boðaði aðgerðir. Á þessu ári hafa hundrað og þrjátíu konur verið myrtar af eiginmanni eða kærasta í Frakklandi, samkvæmt samantekt mannréttindasamtaka. 

Dómsmálaráðuneyti Frakklands birti á dögunum skýrslu þar sem fram kom að ekki væri brugðist nógu kröftuglega við innan kerfisins til að koma í veg fyrir morðin. Ríkisstjórnin ætlar að kynna lagabreytingar á mánudag, sem fela meðal annars í sér fræðslu lögreglumanna og að að skotvopn verða tekin af þeim sem eru grunaðir um heimilisofbeldi.

 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir