Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

13 dánir af völdum Irmu - flóð á Haítí

08.09.2017 - 01:35
epa06190270 A handout photo made available by the Dutch Department of Defense on 07 September 2017 shows an aerial view of the damages of Hurricane Irma in Philipsburg, Sint Maarten, 06 September 2017. Hurrican Irma was declared the most powerful
Frá hollenska hluta eyjarinnar St. Martin, þar sem fellibylurinn Irma olli gríðarmiklu tjóni þegar hann fór þar yfir miðvikudaginn 6. september. Mynd: EPA-EFE - ANP
13 dauðsföll af völdum fellibylsins Irmu hafa nú verið staðfest. Bylurinn mjakast nú í norðvestur, milli Haítí og Karíbahafseyjanna Turks og Caicos. Braut Irmu liggur nokkru norðar en ætlað var og því eru það síðarnefndu eyjarnar sem verða helst fyrir barðinu á Irmu þessar klukkustundirnar, en þar nær meðalvindhraði allt að 280 kílómetrum á klukkustund, um 78 metrum á sekúndu. Á Haítí er engu að síður mikið rok og feikileg rigning.

Úrkoma hefur mælst um 300 millimetrar síðan Irma byrjaði að hamast á þessu fátækasta ríki vesturhvels Jarðar. Þar hafa orðið umtalsverð flóð á nokkrum stöðum og fréttir hafa borist af slysum á fólki. Þrátt fyrir þetta anda menn léttar á Haítí, þar sem innviðir eru meira og minna í molum nú þegar og fyrirsjáanlegt að afleiðingar þess, ef Irma hefði dunið þar yfir af fullum þunga, hefðu orðið hörmulegar. Engar fréttir hafa borist af manntjóni á Haítí af völdum Irmu, enn sem komið er, og það á einnig við um Turks og Caicos.

Stormurinn þokast áfram í átt að Bahamaeyjum og Kúbu, og þaðan mun leið hans liggja til Flórída um helgina. Bandarísk yfirvöld staðfestu í dag að alls hefðu fjórir látist þegar Irma skall á Bandarísku Jómfrúareyjum. Þrír týndu lífi á Púertó Ríkó, sem þó slapp við að lenda í storminum miðjum, rétt eins og Haítí.  Einn lét lífið á eyjunni Anguilla og einn á Barbuda, þar sem um 60 prósent eyjarskeggja eru heimilislaus eftir hamfarirnar. Fyrstu fregnir hermdu að sex hefðu dáið á franska hluta eyjarinnar St. Martin, en einungis fjögur dauðsföll hafa verið staðfest þar. Óttast er að mun fleiri eigi eftir að finnast látnir á heljarslóð Irmu næstu daga.

Frönsk, bresk og hollensk yfirvöld undirbúa nú umfangsmikla flutninga á hjálpargögnum til hamfarasvæðanna. Hreint vatn og matur eru þar í forgangi, auk heilbrigðisstarfsfólks og björgunarsveita.  

 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV