Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

120 manns teljast týndir á Íslandi

25.08.2018 - 15:16
Sviðsetning á atburðunum sem leiddu til dauða Geirfinns. Sviðsetningin fór fram 23. janúar 1977.
Reconstruction of Geirfinnur´s death, 23 January 1977.
Ljósmynd úr lögregluskýrslu málsins
Photograph  from original police archive
 Mynd:
Alls hafa 120 einstaklingar horfið frá árinu 1945 og teljast enn týndir. Þetta kemur fram í ársskýrslu Ríkislögreglustjóra, sem hefur safnað saman öllum tiltækum upplýsingum hjá embættinu um þessa tilteknu einstaklinga. Þegar rýnt er í gögnin sést að einungis ein kona er í hópnum.

Skráin er að sumu leyti byggð á upplýsingum frá lögreglustjórum landsins sem ber að tilkynna ríkislögreglustjóra um horfna menn innan þriggja mánaða frá því að mannshvarf er tilkynnt. Í ársskýrslunni kemur fram að töluverð vinna liggi að baki þessari skrá, upplýsingar hafi meðal annars verið færðar inn úr gömlum skjalaskrám og annars konar geymsluformum.

Sjálfar upplýsingarnar um hina horfnu eru frá ýmsum aðilum, oftast lögreglu en einnig geymir skráin upplýsingar frá Slysavarnarfélaginu sem svo hét auk þess sem blaðaúrklippur eru í stöku tilfellum einu upplýsingarnar.

Fyrirliggjandi upplýsingar eru afar mismunandi með tilliti til efnisatriða og forms. Þannig eru eldri skýrslur iðulega ónákvæmar en almennt eru fyrirliggjandi upplýsingar nákvæmari eftir því sem nær nútíma dregur. Nú eru slíkar upplýsingar færðar inn eftir sérstöku verklagi og jafnframt inn í gagnagrunn kennslanefndar og lögreglukerfið (LÖKE) frá nóvember 2015. Þannig liggur nú fyrir ein, heildstæð skrá yfir alla þá sem ríkislögreglustjóri hefur upplýsingar um að hafi horfið frá 1945.

Skráin geymir meðal annars nöfn margra sjómanna sem farist hafa við störf sín á hafi úti.

 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV