12 rithöfundar fá listamannalaun í tólf mánuði

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

12 rithöfundar fá listamannalaun í tólf mánuði

09.01.2020 - 17:27

Höfundar

Tólf rithöfundar fá listamannalaun í tólf mánuði. Meðal þeirra eru Andri Snær Magnason, Auður Jónsdóttir, Kristín Eiríksdóttir, Kristín Ómarsdóttir, Hallgrímur Helgason og Sjón. Myndlistamaðurinn Sigurður Guðjónsson fær listamannalaun í 24 mánuði en hann verður fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum

Andri Snær er það nafn sem margir tengja við listamannalaunin en fyrir fjórum árum beindust spjótin að honum í tengslum við umræðuna um þau.  Óskað var eftir skýrslum rithöfundarins hjá stjórn listamannalauna sem úrskurðarnefnd um upplýsingamál hafnaði.

„Þetta var svo mikil vitleysa ég hugsaði, „hvernig gat ég skrifað eina bók á tíu árum ef ég fékk bókmenntaverðlaun tvisvar á þessu tímabili, það er ekki hægt,“ sagði Andri í viðtali við Sigurlaugu Margréti Jónasdóttur á Rás 1 í október síðastiðnum.  

Aðrir rithöfundar sem fá listamannalaun í 12 mánuði eru Guðrún Eva Mínervudóttir, Steinunn Sigurðardóttir, Ófeigur Sigurðsson, Gerður Kristný, Eiríkur Örn Norðdahl, Bergsveinn Birgisson, Ófeigur Sigurðsson og Steinunn Sigurðardóttir.

Sigurður Guðjónsson, fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum 2021 , fær listamannalaun í 24 mánuði og Hildur Björk Yeaman er eini hönnuðurinn sem fær listamannalaun í 12 mánuði. 

Sviðslistahópurinn Tabúla Rasa fær listamannalaun í 14 mánuði og Guðrún Dalía Salómonsdóttir og Hanna Dóra Sturludóttir fá tólf mánuði úr launasjóði tónlistarflytjenda.  Tómas R. Einarsson og Ingibjörg Guðný Friðriksdóttir fá tólf mánuði úr launasjóði tónskálda.

Á vef Rannís kemur fram að alls hafi verið sótt um 11.167 mánuði en til úthlutunar voru 1.600.  Fjöldi umsækjenda voru 1.543 en listamannalaun fengu 325.  Listamannalaun eru 407.413 og greiðast þau sem verktakagreiðslur.