Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

12 oddvitar mætast í sjónvarpinu í kvöld

22.09.2016 - 14:31
Oddvitar þeirra 12 flokka sem hafa boðað framboð til þingkosninganna í október mætast í fyrsta skipti í sjónvarpskappræðum á RÚV í kvöld. Þátturinn er sýndur í beinni útsendingu sem hefst strax að loknum kvöldfréttum og veðri klukkan 19:40. Kappræðunum verður einnig útvarpað á Rás 2, hann verður textaður á síðu 888 og táknmálstúlkaður á hliðarrásinni RÚV 2.

Flokkarnir sem eru á þingi og gætu náð manni inn á þing samkvæmt síðustu skoðanakönnunum eiga það flestir sameiginlegt að gustað hefur um þá að undanförnu.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið mjög til umfjöllunar eftir prófkjörsúrslit í Suður- og Suðvesturkjördæmi og spjót Vigdísar Hauksdóttur hafa staðið á Steingrími J. Sigfússyni, fyrrverandi formanni og ráðherra Vinstri grænna. Fylgi Samfylkingarinnar hefur ekki verið á uppleið eftir að Oddný G. Harðardóttir tók við formennsku af Árna Páli Árnasyni. 

Þá er enn óvíst hver framvindan verður innan Framsóknarflokksins - þess er nú beðið að Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra, geri upp hug sinn varðandi formannsframboð gegn Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni. Sigmundur Davíð hefur sagt að menn séu að reyna að geta í eyðurnar í ræðu Sigurðar Inga á miðstjórnarfundi flokksins.

Þá hefur fast verið sótt að Pírötum vegna prófkjörsins í Norðvesturkjördæmi. Þar hafa spjótin einna helst beinst að Birgittu Jónsdóttur. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, viðraði sömuleiðis þá skoðun sín í viðtali við bresku sjónvarpsstöðina Channel 4 að Píratar ættu sem hugsjónaflokkur erfitt með að gera málamiðlanir.

Fylgi Bjartrar framtíðar hefur verið lítið um langa hríð samkvæmt skoðanakönnunum og óvíst um framtíð flokksins á þingi. Framboð Viðreisnar hefur verið sagt klofningsframboð frá Sjálfstæðisflokknum - sú skoðun fékk byr undir báða vængi þegar að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrrverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins, og Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður, gengu til liðs við flokkinn.

Þeir sem mæta fyrir hönd framboðanna eru Katrín Jakobsdóttir VG, Bjarni Benediktsson Sjálfstæðisflokki, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Framsóknarflokki, Óttarr Proppé Bjartri framtíð, Einar Brynjólfsson Pírötum, Benedikt Jóhannesson Viðreisn, Þorvaldur Þorvaldsson Alþýðufylkingu, Helga Þórðardóttir Dögun, Inga Sæland fyrir Flokk fólksins, Júlíus Valdimarsson fyrir Húmanista, Helgi Helgason Þjóðfylkingunni og Oddný Harðardóttir fyrir Samfylkinguna.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV