Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

11 milljónir tonna af brennisteinsdíoxíð

15.04.2015 - 15:50
Mynd með færslu
 Mynd: Lára Ómarsdóttir - RÚV
Vísindamenn hjá Veðurstofu Íslands hafa reiknað út hversu mikið gosið í Holuhrauni mengaði í heild. Um ellefu milljónir tonna af brennisteinsdíoxíð komu frá gosinu í þá sex mánuði sem það stóð og 6,5 milljónir tonna af koltvíoxíð.

Þetta kom fram í máli Dr. Söru Barsotti, fagstjóra eldfjallavár hjá Veðurstofu Íslands, á ráðstefnu í Vín. BBC greinir frá þessu á vef sínum.

Þar segir enn fremur að gasið frá gosinu hafi ekki haft stórvægileg áhrif á heilsu Íslendinga eða umhverfi. Landsmenn hafi þó vissulega fundið fyrir menguninni frá gosinu.  

Fram hefur komið að öll mengun af völdum brennisteinsdíoxíðs í löndum Evrópusambandsins hafi aðeins verið fjórðungur af því sem kom úr Holuhrauni. Um 20 til 60 þúsund tonn af brennisteinsdíóxíð komu frá gosinu á hverjum degi.

Í umfjöllun BBC kemur fram að gosið í Holuhrauni hafi verið eitt það stærsta á Íslandi í áratugi  - það eigi þó ekki roð í Skaftárelda sem stóð frá 1783 til 1784. Áætlað er að um 110 milljónir tonna af brennisteinsdíóxíð hafi komið frá gosinu.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV