Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

11 ára bannað að fara í þungunarrof

Mynd með færslu
Yfirvöldum í Tucuman mótmælt. Mynd:
11 ára stúlka gekkst undir bráðakeisaraskurðaðgerð í Argentínu á þriðjudag eftir 23 vikna meðgöngu. Argentínsk yfirvöld höfðu fram að því hunsað beiðni hennar, móður hennar og kvenréttindasamtaka fyrir því að stúlkan færi í þungunarrof þegar upp komst að hún gengi með barn í janúar.

Þungunarrof er ólöglegt í Argentínu og er opinber stefna stjórnvalda að þungaðar konur gangi alla leið með börn sín. Þannig var það með hina 11 ára gömlu stúlku sem var nauðgað af sambýlismanni 65 ára gamallar ömmu hennar. Hún fór í umsjá þeirra árið 2015, eftir að eldri systur hennar tvær voru beittar ofbeldi af sambýlismanni móður þeirra. Hún komst að því þann 23. janúar við skoðun í bráðamóttöku í Tucuman-héraði, þar sem heimabær hennar er. Viku síðar var henni komið fyrir í Evu Peron sjúkrahúsinu, skammt utan borgarinnar Tucuman, þar sem hún var sett í gjörgæslu vegna sára sem virtust vera vegna sjálfsvígstilrauna.

Samkvæmt argentínskum lögum er þungunarrof leyft eftir nauðgun eða þegar líf móðurinnar er í hættu. Læknir bar fyrir dómi að líf stúlkunnar væri í hættu ef hún yrði látin ganga með barnið alla meðgönguna. Yfirmaður heilbrigðismála í Tucuman-héraði sagði það hins vegar af og frá. Hann sagðist vera tengdur bæði stúlkunni og móður hennar, og stúlkan hafi viljað ljúka meðgöngunni. Að sögn Guardian segjast baráttusamtök sem hafa aðgang að dómsskjölum geta rengt þá fullyrðingu.

Heilbrigðisyfirvöld ákváðu hins vegar að nóg væri komið á þriðjudag, eftir 23 vikna meðgöngu. Cecilia Ousset, læknirinn sem framkvæmdi aðgerðina, sagði læknana hafa bjargað lífi ellefu ára barns sem heilbrigðiskerfi héraðs hennar hafði látið kveljast í mánuð. Hún sagði líðan stúlkunnar góða en taldi barnið ekki eiga eftir að lifa lengi.

Mikil reiði er í Argentínu beggja vegna borðsins. Kvenréttindasinnar eru bálreiðir yfir því að 11 ára stúlka hafi verið látin líða vítiskvalir og sett í slíka hættu. Mariano Obarrio, blaðamaður La Nacion, vinsælasta dagblaðs Argentínu, skrifaði á Twitter að varnarlaus og saklaus manneskja hafi verið rifin úr móðurkviði í Tucuman. Nú liggi það við dauðanum þegar 20 dagar til viðbótar hefðu dugað til þess að tryggja líf beggja.

Efri deild argentínska þingsins hafnaði því naumlega í fyrra að leyfa þungunarrof. Þess í stað samþykktu þeir áframhaldandi lög um að allt að fjögurra ára fangelsi bíði þeirra sem fara í þungunarrof. Lögin koma hins vegar ekki í veg fyrir að konur láti rjúfa meðgöngu. Samkvæmt heimildum Guardian er þungunarrof framkvæmt að meðaltali á 90 sekúndna fresti í landinu, eða allt að 450 þúsund ólöglegar aðgerðir árlega.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV