Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

104 af 20 þjóðernum gista fjöldahjálparstöð í Vík

10.03.2020 - 02:33
Fjöldahjálparstöð Víkurdeildar RKÍ í íþróttahúsinu í Vík, 9. - 10. mars 2020. 104 dvöldu nóttina í fjöldahjálparstöðinni þar sem þjóðvegur 1 til vesturs lokaðist vegna óveðurs og ófærðar.
Ferðalangarnir tóku af sér skóna í anddyri íþróttahússins, að íslenskum sið. Mynd: Víkurdeild RKÍ - RKÍ
104 ferðalangar frá frá 20 löndum dvelja nú í fjöldahjálparstöð Rauða krossins í Vík í Mýrdal, þar sem þjóðvegur 1 er lokaður til vesturs, frá Vík að Steinum, vegna óveðurs. Árni Jóhannsson, formaður Víkurdeildar Rauða krossins, segir að beiðni hafi borist frá lögreglu upp úr tíu í kvöld og stöðin verið opnuð í íþróttahúsinu í Vík stundarfjórðungi fyrir ellefu.

Beddar, dýnur og teppi fyrir alla eru á sínum stað og allir hafa fengið kaffi mjólk og vatn sem vilja, en flestir hafi komið vel mettir í hús eftir viðkomu í Víkurskála. Fólkið var á ferð í þremur rútum og nokkrum fjölda bílaleigubíla. Fyrir utan rútubílstjóra og fararstjóra eru gestir allir erlendir ferðamenn.

Ekki fært í vestur fyrr en með morgninum

Árni segir ekki búist við að byrjað verði að ryðja fyrr en í fyrramálið. Fólk komist því varla af stað fyrr en upp úr átta, þótt margir sem eiga bókað flug fyrir hádegi vildu eflaust komast fyrr af stað. Veður hefur heldur lagast í Vík frá því sem verst var, segir Árni, og ekki jafn blint og síðdegis og í gærkvöld, þótt enn blási svolítið.

„Fólk fer samt ekkert fyrr en búið er að ryðja, það eru miklir og stórir skaflar á Reynisfjallinu og undir Eyjafjöllum sem enginn fer í gegnum nema á snjóruðningstækjum eða mikið breyttum og öflugum jeppum,“ segir Árni. Verður strandaglópunum því séð fyrir einhverju snarli í morgunsárið, á meðan þau bíða þess að geta lagt í'ann á ný. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV