Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

100 þúsund krónur fyrir að aka að flakinu

29.08.2016 - 10:51
Indverska kvikmyndastjarnan Shah Rukh Khan á Douglas Dakota flugvélarflaki á Sólheimasandi.
 Mynd: RÚV
Einn eigandi lands að Sólheimasandi segir ekkert athugavert við það að ferðamaður sem fór inn fyrir lokað svæði á bíl hafi verið krafinn um 800 evrur, jafnvirði 100 þúsund króna, fyrir að komast út af svæðinu. Það hafi verið ákveðið á fundi landeigenda að það kosti 100 þúsund krónur að aka inn á svæðið sem var girt af í vor.

Benedikt Bragason, bóndi á Ytri-Sólheimum I, segir að ellefu landeigendur hafi ákveðið gjaldtökuna á fundi sínum. Erlendur ferðamaður sem komst inn fyrir girt svæði á bílaleigubíl komst ekki af svæðinu nema greiða 800 evrur fyrir, jafnvirði um 100 þúsund króna. Hann hefur tilkynnt málið til lögreglunnar á Suðurlandi. Lögreglan staðfestir að málið sé komið inn á borð til þeirra og að farið verði yfir það.

Bílaleigubílinn lokaður inni
Kjartan Magnússon segir frá því á Facebook-síðu Bakland ferðaþjónustunnar að maður sem hafði bíl á leigu hjá honum hafi verið lokaður inni eftir að hafa farið að skoða flugvélagflakið fræga á Sólheimasandi. Kjartan segir manninn hafa lagt bílnum innan girðingar og gengið að flakinu. Þegar hann kom til baka var búið að læsa hliðinu með hengilás og landeigandinn neitaði að opna nema að fá 800 evrur fyrir.

Benedikt Bragason er einn þeirra 11 landeigenda sem eiga land að Sólheimasandi. Hann segist ekki kannast við þetta mál en sér ekkert óeðlilegt við það. „Það kostar 100 þúsund að komast að flakinu." Hann segir manninn hafa getað kallað á lögreglu ef hann hafi verið ósáttur.

„Þetta er náttúrulega alls ekki það sem við vildum gera“
Benedikt segir landeigendur vera þreytta á ágangi ferðamanna og ekki síst atvinnumanna í ferðaþjónustunni. Því hafi verið tekið upp á því að rukka inn á svæðið. „Þetta er mikil óhagræðing fyrir okkur og þetta er náttúrulega alls ekki það sem við vildum gera, að leyfa mönnum ekki að keyra niður að flugvélinni. Því miður voru atvinnumenn í ferðaþjónustunni verstir," segir hann.

Benedikt segir landeigendur vera í fullum rétti til þess að innheimta gjald fyrir aðgang að landinu en búið er að girða svæðið og er hengilás fyrir hliðum. „Þetta er einkaland og verðið er samkomulag á milli landeigenda."

„Hann getur þá bara kært fjárkúgun til lögreglu“
Benedikt er orðinn þreyttur á því að landeigendur séu gagnrýndir á „Baklandi ferðaþjónustunnar" á Facebook og stendur fast á sínu. „Það má endalaust drulla yfir okkur á baklandi ferðaþjónustunnar."

Hann telur manninn ekki hafa verið kúgaðan til að greiða fyrir að komast í gegnum girðinguna. „Hann getur þá bara kært fjárkúgun til lögreglu.“ 

Ríkar heimildir til að loka einkavegum
Jóhann Fannar Guðjónsson lögfræðingur segir landeigendur hafa nokkuð ríkar heimildir til að loka einkavegum fyrir umferð. Hann skrifaði meistararitgerð um heimildir til gjaldtöku fyrir för almennings um eignarlönd. „Þessar gjaldtökuheimildir ráðast af því hvert eðli viðkomandi svæðis er," segir Jóhann. „Þegar menn hafa einkaveg þá geta þeir lokað gagnvart umferð," segir hann en segir það dómstóla að skera úr um hver niðurstaðan er ef upp kemur ágreiningur um einstök mál.
 

 

Mynd með færslu
Landeigendur lokuðu landinu í vor vegna utanvegaaksturs. Mynd: Benedikt Bragason - RÚV
Hrefna Rós Matthíasdóttir
Fréttastofa RÚV