Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

100% kjörsókn í Mjóafirði

29.10.2016 - 16:53
Mynd með færslu
 Mynd: visitfjardabyggd.is
Íbúar í Mjóafirði eru búnir að kjósa og kjörkassinn er lagður af stað á talningastað. Allir sem voru á kjörskrá kusu og Sigfús Vilhjálmsson, formaður kjörstjórnar þar, segir kjörsóknina því 100 prósent.

Kosningu í Mjóafirði lauk klukkan 14 og Sigfús segir að búið hafi verið að ganga frá öllu um fjögurleytið. Formlega séð var kjörfundur þó opinn til kl. 17. Það eru 18 manns á kjörskrá í Mjóafirði. Allir voru heima nema einn, en Sigfús segir að kona sem var á leið til útlanda hafi kosið utan kjörfundar.

Sigfús segist hafa farið með kjörkassann yfir Mjóafjarðarheiði til móts við formann yfirkjörstjórnar í Fjarðarbyggð. Það er fínasta færð fyrir austan, rigningarsuddi og 4 stiga hiti.

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV