Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

100 ár frá lokum Fyrri heimsstyrjaldarinnar

11.11.2018 - 07:00
Breskur hermaður í skotgröf í Somme. Júlí 1916
 Mynd: Wikimedia Commons
100 ár eru liðin í dag síðan vopnahléssamningarnir sem bundu endi á átök Fyrri heimsstyrjaldarinnar voru undirritaði. Af því tilefni koma leiðtogar ríkja heims saman í París.

Þýsk sendinefnd undirritaði vopnahléssamningana fyrir sólarupprás 11. nóvember 1918 í lestarvagni í eigu fransk herstjóra. Vagninum hafði verið lagt á brautarteinum í Compiegne-skógi þar sem nútíma leiðtogar Frakklands og Þýskalands, þau Emmanuel Macron og Angela Merkel, hittust í gær. Þau sýndu samstöðu sína með því að sitja í sama lestarvagni og samningarnir höfðu verið undirraðir 100 árum áður. 

Síðast þegar leiðtogar Þýskalands og Frakklands funduðu á þessum stað réð Adolf Hitler ríkjum í Þýskalandi. Hann valdi þennan stað til þess að knýja fram uppgjöf franskra stjórnvalda eftir innrás nasista í Frakkland 1940. 

„Friður hefur ríkt í Evrópu í 73 ár. Það ríkir friður því við viljum frið og vegna þess að Þýskaland og Frakkland vilja frið,“ sagði Macron við nokkur ungmenni í gær og átti þar við friðarsamninga sem undirritaðir voru í lok Seinni heimsstyrjaldarinnar 1945.

Angela Merkel og Emmanuel Macron, leiðtogar Þýskalands og Frakklands, féllust í faðma í gær.

Dramatískra breytingar 

Talið er að allt að tíu milljón hermenn hafi fallið í Fyrri heimsstyrjöldinni sem stóð árin 1914-1918 og meira en 21 milljón manns hafi særst. Talið er að nærri 10 milljón óbreyttra borgara hafi fallið í stríðinu. Hörðust voru átökin í skotgröfum í norðanverðu Frakklandi og í Belgíu, þar sem víglínan færðist lítið sem ekkert nær allt stríðið. 

Heimsstyrjöldin fyrri hafði í för með sér einhverjar dramatískustu breytingar á pólitísku landslagi í Evrópu í sögunni, þar sem fjögur keisararíki féllu. Á meðan stríðinu stóð varð rússneska byltingin þar sem Bolsévikar komust til valda í Rússlandi, ríki Austurríkis-Ungverjalands liðaðist í sundur, Ottómanaveldið liðaðist jafnframt í sundur og fræjunum var sáð fyrir uppgang fasisma í Evrópu. 

Vélvæðing stríðsátaka 

Fyrri heimsstyrjöldin hefur stundum verið kallað „fyrsta nútímalega stríðið“ vegna gríðarlegrar tækniþróunar stríðstækja sem hafði orðið árin á undan og varð á meðan stríðinu stóð. Vélvæðing stríðsátakana jók mannfall gríðarlega. Þau stríðstæki sem tóku ótrúlegum tækniframförum á vígvellinum í Fyrri heimsstyrjöldinni voru til dæmis vélbyssur, striðdrekar, orrustuflugvélar og talstöðvarsamskipti. 

Afleiðingar efnavopnanotkunnar í stríðinu varð til þess að viðhorf bæði almennings og hernaðaryfirvalda til efnavopna breyttist. Beiting sinnepsgass og fosgen-gass í stríðinu hafði hryllileg áhrif á hermenn og óbreytta borgara. Genfarsáttmálinn sem undirritaður var 1925 bannaði notkun efnavopna í hernaði. Sáttmálinn gildir enn þann dag í dag. 

Vegna þverrandi aðfanga á vígvellinum, óánægju með stríðsreksturinn heima fyrir og uppgjafar bandalagsþjóða, þurfti Þýskaland á endanum að undirrita vopnahléssamninga á þessum degi, 11. nóvember 1918. 

Vopnahléssamningarnir tóku gildi sama morgun en það var ekki fyrr en við undirritun Versalasamninganna 1919 sem friður var tryggður og samkomulag var gert um uppbyggingu ríkjanna í Vestur-Evrópu eftir stríðið. Um þessar mundir kölluðu bjartsýnismenn nýafstaðna styrjöld „stríðið sem enda átti öll stríð“. Annað átti eftir að koma í ljós. 

Versalasamningarnir og framkoma annarra ríkja gagnvart Þýskalandi eftir styrjöldina átti eftir að skapa reiði meðal fasískra afla í Þýskalandi. Tveimur áratugum síðar varð sú reiði eitt af því sem talið er hafa hrint Seinni heimsstyrjöldinni af stað.

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV