100 ár frá frostavetrinum mikla

100 ár frá frostavetrinum mikla

04.01.2018 - 19:34

Höfundar

Um þessar mundir eru 100 ár liðin frá frostavetrinum mikla. Snemma árs 1918 brast á mesti kuldakafli í manna minnum hér á landi. Mikil harðindi voru þá um allt land og 30 stiga frost víða. Veðurfræðingur segir að frostdagar undanfarið komist ekki hálfkvist sem það var fyrir 100 árum.

Snögg umskipti urðu í veðrinu á Íslandi 5. janúar 1918. Það var góð tíð yfir jól og áramót, en svo gerði skyndilega norðanátt og hörkufrost. Á þrettándanum var víða komið 20 stiga frost og fór kólnandi. 

Hafís fyllti hafnir og honum fylgdi mikið frost

„Það hélst kalt meira og minna í einhverjar 3-4 vikur, út janúarmánuð að mestu leyti. Og svo náði þetta hámarki, annars vegar upp úr þrettándanum og síðan í kringum 20. janúar,“ segir Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur. Hafís rak fljótlega að landi á Vestfjörðum og barst þaðan um allt Norðurland og suður á Austfirði. Lengst náði ísinn suður að Papey. Siglingaleiðir tepptust, hafnir fylltust af hafís og honum fylgdu miklar frosthörkur. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

38 gráðu frost 21. janúar 1918

„Það var farið að mæla á Fjöllum á þessum tíma, bæði á Grímsstöðum og Möðrudal. Þá mældist frostið 38 stig 21. janúar og það er ekki gerður greinarmunur þarna á milli,“ segir Einar. Þennan sama dag var 29 stiga frost í Borgarnesi, 28 stig á Ísafirði, 32 stig voru á Sauðárkróki og 33,5 stiga frost var á Akureyri. Daginn eftir mældust 24,5 gráður í Reykjavík sem er langmesta frost sem þar hefur mælst.

Ísbirnir gengu á land og hross frusu í hel

Og á Suðvesturlandi fraus í höfnum; Innfirðir allir eru nú lagðir ísi, má lesa í Öldinni okkar. „Ís sem að myndaðist bara í frosthörkunum,“ segir Einar. „Og það var gengt úr Reykjavík í Viðey og reyndar alveg upp á Kjalarnes í örfáa daga. Kollafjörðurinn fraus og þetta var einsdæmi á þessum tíma.“ Og hafísnum fylgdu ísbirnir. Vísir segir frá því 21. janúar að þá hafi verið lagðir að velli fjórir ísbirnir á Melrakkasléttu og í Fljótum hafi einn verið drepinn. Þá féll búfé en í Morgunblaðinu 15. janúar segir að í Landeyjum hafi tvö hross frosið í hel, þau hafi fundist standandi í haga beingödduð.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Kalt í húsum og vatn fraus í lögnum

En áhrifin á mannfólkið voru mikil og enn meiri í þéttbýli, en úti um sveitir. „Og í þessum húsakynnum, þessi hús voru flestöll tiltölulega ný af nálinni, þau voru ekki nægjanlega vel einangruð. Það var líka farið að reisa steinhús, þau voru köld. Og á þessum tíma fyrri heimsstyrjaldarinnar var mjög lítið um kol til þess að kynda, menn kyntu með mó, og það var almennt séð mjög kalt í húsunm. En það var samt ótrúlegt hvað fólk komst af. Í sveitum landsins voru menn kannski vanari svona kuldum þar sem menn bjuggu í torfbæjunum,“ segir Einar. „En það sem menn tóku einna helst eftir, og plagaði menn helst, var að í til dæmis Reykjavík þá fraus allt vatn. Það fraus í þessum fáu lögnum sem voru komnar, það fraus á kömrum hjá fólki og auðvitað þá olli þetta fólki margskonar erfiðleikum. En sem betur fer þá stóð þetta ekki yfir nema í 3-4 vikur.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Kemst ekki í hálfkvist við kuldann fyrir 100 árum

Og enn koma kaldir vetur á Íslandi og stutt er síðan RÚV fjallaði um 28 stiga frost við Mývatn. En almennt hefur hlýnað, segir Einar, veðrið er sveiflukenndara í dag og veturnir ekki eins kaldir og fyrr. „Það voru hér köld ár í kringum 1970 sem að sumir muna eftir. En svona viðlíka kuldar og gerði í janúar 1918, er eitthvað sem flestum yrði mjög brugðið við. Þó svo að það hafi verið nokkuð kalt undanfarnar vikur, þá kemst kuldinn ekki í hálfkvist við það sem var þarna fyrir 100 árum síðan.“