Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

100 - 200 rúmmetrar úr jörðu á sekúndu

07.09.2014 - 14:01
Mynd með færslu
 Mynd:
Mynd:  / 
Hundrað til 200 rúmmetrar af kviku streyma upp úr gígunum í Holuhrauni á hverri sekúndu að því er fram kemur í stöðuskýrslu af fundi vísindamannaráðs Almannavarna í hádeginu. Samkvæmt því dregur ekkert úr gosinu í Holuhrauni. Ómar Ragnarsson fjölmiðlamaður segir að syðri sprungan gjósi ekki lengur.

Hraunið gengur fram um einn kílómetra á dag, nær ellefu kílómetra til norðurs og síðdegis í gær þakti það sextán ferkílómetra lands. Gosvirkni er á sömu stöðum og áður, samkvæmt stöðuskýrslu vísindamannaráðs frá því í hádeginu. Þá var orðin lítil virkni er í sprungunni sem opnaðist á föstudag ef hún er borin saman við nyrðri sprunguna sem hefur verið virk frá upphafi.

Ómar Ragnarsson fjölmiðlamaður flaug aftur yfir eldstöðvarnar rétt fyrir klukkan eitt og segir að ekki komi lengur hraun upp úr nýju sprungunni.

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur sagði í samtali við fréttastofu að vart hefði breyttrar virkni en ekki væri búið að rannsaka syðri sprunguna sérstaklega. Hann sagði að kvikustreymið úr henni hefði verið orðið það lítið í gær að það hefði ekki mikil áhrif á heildarmyndina hvort það gysi áfram úr þeirri sprungu eða ekki.

Lögreglustjórinn á Húsavík ákvað í dag að aflétta tímabundnum takmörkunum á aðgangi vísindamanna og fjölmiðlamanna. sem hafa sérstök leyfi, að lokaða svæðinu norðan Vatnajökuls. Lokanir á svæðinu eru þó enn í gildi gagnvart annarri umferð og strangt á því tekið sjáist til ferða annarra innan svæðisins en þeirra sem hafa heimild til að vera þar. Í tilkynningu frá almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra er vísað í mat Vinnueftirlitsins sem segir að starfsumhverfi í nágrenni eldsumbrota sé hættulegt með tilliti til eiturefna, fljúgandi jarðefna, hita og mögulegra flóða.