Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

10% minni umferð á höfuðborgarsvæðinu vegna COVID-19

21.03.2020 - 21:32
Mynd með færslu
 Mynd: Hallgrímur Indriðason - RÚV
Hratt hefur dregið úr umferð á höfuðborgarsvæðinu eftir að COVID-19 faraldurinn fór að breiðast út. Umferð dróst þar saman um 10,1 prósent fyrstu þrjár vikurnar í mars, sé miðað við sama tíma í fyrra, að því er fram kemur á vef Vegagerðarinnar. Þar segir að þessi samdráttur sé fáséður á höfuðborgarsvæðinu.

Af þeim stöðum þar sem umferð er mæld hefur hún dregist mest saman á Hafnarfjarðarvegi við Kópavogslæk. Þar er umferðin 15,3 prósentum minni nú en á sama tíma í fyrra. „Þessi samdráttur á Hafnarfjarðarvegi verður að teljast gríðarlegur þar sem fá dæmi, ef nokkur, eru um slíkt, haldi þetta áfram eða verði viðvarandi út mánuðinn, sem alls ekki er óhugsandi vegna nýlegs samkomubanns og þróunar Covid-19 faraldursins í samfélaginu,“ segir á vef Vegagerðarinnar.

Umferðin um Reykjanesbraut við Dalveg í Kópavogi er 9,1 prósenti minni nú en í fyrra og á Vesturlandsvegi, ofan Ártúnsbrekku, hefur hún dregist saman um 7 prósent.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir