Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

10 látnir eftir árás vígamanna í Búrkína Fasó

28.01.2019 - 01:31
Mynd með færslu
Róstusamt hefur verið í Búrkína Fasó um langt skeið. Hér bera hermenn fallinn félaga sinn til grafar eftir hryðjuverk í höfuðborginni Ouagadougou Mynd:
Tíu eru látnir og tveir særðir eftir hryðjuverkaárás í norðurhluta Búrkína Fasó í dag. AFP fréttastofan hefur þetta eftir öryggissveitarmanni og embættismanni. Árásin var gerð í þorpinu Sikire í Sahel héraði, sem verður ítrekað fyrir árásum vígamanna.

Samkvæmt embættismanni í Arbinda, um 20 kílómetrum frá Sikire, fóru vígamenn vopnaðir Kalashnikov rifflum nokkrum sinnum inn í þorpið og skutu á íbúa. Þá rændu þeir verslanir og önnur fyrirtæki áður en þeir kveiktu í þeim. Embættismaðurinn segir íbúa þorpsins hafa reynt að fela sig heima fyrir. Þeir séu óttaslegnir þar sem árásum af þessu tagi hafi fjölgað undanfarið, að sögn embættismannsins.

 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV