Auglýsingareglur RÚV og RÚV sölu

1. gr. Almenn ákvæði
Birting auglýsinga í RÚV er á ábyrgð auglýsanda. Í því felst að auglýsandi ábyrgist heimild sína til efnis auglýsingar og að birting brjóti hvorki í bága við lög né réttindi annarra. RÚV hafnar beiðni um birtingu auglýsingar verði þess vart að hún brjóti í bága við við lög, skilmála þessa eða réttindi annarra en auglýsanda. Birtist slík auglýsing allt að einu haggar það ekki ábyrgðarreglunni. 

Helstu ákvæði laga um efni auglýsinga eru í VI. kafla fjölmiðlalaga nr. 28/2011, IV. kafla reglugerðar um útvarpsstarfsemi nr. 50/2002, lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu nr. 57/2005 og reglugerð nr. 160/2009 um viðskiptahætti sem teljast undir öllum kringumstæðum ólögmætir. Þá skal gætt ákvæða höfundalaga nr. 73/1972. 

2. gr. Skil á auglýsingum
Á vef RÚV er að finna reglur um skilafrest og tæknileg atriði varðandi skil á auglýsingum til birtingar. Falli birting auglýsingar niður, eða komi fram galli í útsendingu sem má rekja til mistaka eða tæknilegra örðugleika hjá RÚV, skal það í samráði við auglýsandann bætt með:
a) aukabirtingu án endurgjalds
b) niðurfellingu gjalds í þeim tilvikum sem endurbirtingu verður ekki við komið

3. gr. Skilyrði fyrir birtingu auglýsingar
Auglýsingar sem ætlaðar eru til birtingar í hljóðvarpi eða sjónvarpi skulu vera í samræmi við gildandi lög og reglur hverju sinni. 

RÚV gerir ríkar kröfur um málfar, sérstaklega í auglýsingum sem lesnar eru af þulum RÚV og áskilur sér rétt til að hafna auglýsingum sem fullnægja ekki málfarskröfum, náist ekki samkomulag við auglýsanda um breytingar á málfari, sem athugasemdir eru gerðar við. Jafnan skal vera ljóst af innihaldi auglýsingar hver réttur og eiginlegur auglýsandi er. 

Í samlesnum auglýsingum skal tilgreining á auglýsanda að jafnaði vera hluti af auglýsingu. Heimilt skal þó að birta auglýsingar fyrir sérstaka viðburði, opnun sýninga o.s.frv. þegar hluti af því að auka spennu fyrir viðkomandi viðburð er að auglýsandinn sé ekki auðkenndur. Í slíkum tilvikum skal þess gætt að ekki sé gefið í skyn að auglýsandi sé annar en raunin er, ekki sé viðhafður samanburður við aðrar vörur og að auglýsingin sé aðeins birt skömmu fyrir slíkan viðburð. 

4. gr. Tækifærisauglýsingar
Ekki er tekið við tækifærisauglýsingum , kveðjum eða árnaðaróskum til nafngreindra einstaklinga sem tengjast viðburðum í lífi þeirra svo sem afmælum, brúðkaupum, námslokum osfrv.
Um dánartilkynningar, jóla- og áramótakveðjur gilda viðteknar venjur. 

5. gr. Auglýsingar hagsmunasamtaka, stjórnmálaflokka og stuðningsmanna flokka, einstakra málefna og einstaklinga.
Magn auglýsinga frá stjórnmálaflokkum og öðrum þeim sem að framboði standa má ekki verða til þess að hindra birtingu auglýsinga annarra framboðsaðila. Óheimilt er að veita einum framboðsaðila afnot af heilum auglýsingatíma. RÚV áskilur sér rétt til niðurröðunar auglýsinga í aðdraganda kosninga og að panta þurfi þær með ákveðnum fyrirvara. Allir stjórnmálaflokkar og aðrir sem að framboði standa njóta sömu föstu afsláttarkjara sem auglýsingadeild Rúv gefur út. Gilda þau kjör jafnframt um almennar auglýsingar viðkomandi, óháð því hvort kosningar eru framundan. Staðhæfingar settar fram sem staðreyndir í auglýsingum hagsmunasamtaka og stjórnmálaflokka skulu vera sannreynanlegar með einföldum og aðgengilegum hætti og skal auglýsandi sýna fram á það verði þess krafist. 

Óheimilt er að uppnefna einstaka menn, stofnanir, félagasamtök eða stjórnmálaflokka. Skýrt skal vera hver stendur að auglýsingu sbr. ákvæði 3 gr. Almennt skal greiðandi auglýsingar tilgreindur og félög sem að auglýsingu standa skulu formbundin. RÚV er rétt að hafna auglýsingum frá óformbundnum félagsskap ef heiti eða vísan til hans er almenns eðlis og gæti átt við fleiri aðila en einn.

6. gr. Kostun, rof dagskrárliða og hlutfall viðskiptaboða. Viðmið.

Heimilt er að afla tekna með kostun dagskrárliða í eftirfarandi tilvikum:

  1. við útsendingu íburðarmikilla dagskrárliða til að mæta útgjöldum við framleiðslu eða kaup á sýningarrétti,
  2. við útsendingu innlendra íþróttaviðburða og umfjöllunar um þá.

Heimilt er að rjúfa dagskrárliði með viðskiptaboðum í sjónvarpi í eftirfarandi tilvikum:

  1. við útsendingu íburðarmikilla dagskrár,
  2. við útsendingu eigin framleiðslu sem er a.m.k. 60 mínútur að lengd.

Til íburðarmikilla dagskrárliða skv. a. liðum 1. og 2. mgr. teljast dagskrárliðir sem falla undir einn eða fleiri eftirfarandi flokka:

  • útsendingar stórviðburða á borð við Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, Söngvakeppnin, Menningarnótt og söfnunarútsendingar fyrir góðgerðarmál, svo og afleidd dagskrá að því gættu að kostun, sbr. 1. mgr., sé seld í einu lagi;
  • viðamiklar útsendingar (mann- og kostnaðarfrekar) frá mörgum stöðum samtímis;
  • stórmót í íþróttum, innanlands sem erlendis, svo sem Landsmót hestamanna, heimsmeistara- og evrópukeppnir, smáþjóðaleikar, Norðurlandamót, heimsbikarmót og útsláttarkeppnir, svo og afleidd dagskrá að því gættu að kostun, sbr. 1. mgr., sé seld í einu lagi og að því marki sem b. liður 1. mgr. á ekki við;
  • þættir og þáttaraðir, einkum leikið efni og heimildaþættir, framleidd af sjálfstæðum framleiðendum eða í formi samframleiðslu, þar sem framleiðslu- eða innkaupakostnaður RÚV nemur að lágmarki 30 milljónum króna á ársgrundvelli (yfir 12 mánaða tímabil) og tekur sú fjárhæð breytingum í samræmi við vísitölu neysluverðs og skal grunnvísitala miða við janúar 2017; og
  • eigin framleiðsla RÚV, í formi leikinna verka fyrir sjónvarp og/eða hljóðvarp eða gerð heimildarþátta(-raða), þar sem framleiðslukostnaður RÚV nemur að lágmarki 30 milljónum króna á ársgrundvelli (yfir 12 mánaða tímabil) og tekur sú fjárhæð breytingum í samræmi við vísitölu neysluverðs og skal grunnvísitala miða við janúar 2017.

Til íburðarmikilla dagskrárliða skulu ekki taldir þeir dagskrárliðir sem teljast til eigin framleiðslu RÚV og eru hefðbundnir liðir í reglulegri sjónvarps- og/eða útvarpsdagskrá, svo sem hefðbundið afþreyingarefni á borð við umræðu- og spjallþætti, spurningakeppnir og einstakir heimildarþættir.

Ákvæði þetta tekur jafnframt til netútsendinga.

Upplýsingar um kostaða dagskrárliði og rof dagskrárliða hvers rekstrarárs eru aðgengilegar í ársskýrslu RÚV sem birt er á vef félagsins.

7. gr. Framkvæmd
Auglýsingastjóri RÚV sker úr um hvort auglýsing fullnægi skilmálum þessum. Hann skal hafna auglýsingu sem hann telur efnislega eða tæknilega ófullnægjandi. Verði ágreiningur um framfylgni skilmálanna af hans hálfu getur sá sem ekki sættir sig við afstöðu hans vísað þeim ágreiningi til útvarpsstjóra.

 

Gjaldskrá RÚV og rúv sölu

1. gr.
Gjaldskrá þessi er sett á grundvelli 7. gr. laga um Ríkisútvarpið ohf. nr. 23/2013.

2. gr.
RÚV setur verðskrá fyrir auglýsingar í útvarpi og sjónvarpi þar sem fram koma gildandi viðskiptakjör félagsins hverju sinni á grundvelli gjaldskrár þessarar.
Við ákvörðun viðskiptakjara í verðskrá skal gæta jafnræðis gagnvart viðskiptamönnum. Viðskiptakjör skulu vera gagnsæ.
RÚV skal birta á vefnum gildandi verðskrá, þ.m.t. fyrirkomulag afsláttarkjara.

3. gr.
Við ákvörðun viðskiptakjara skal taka mið af birtingartíma, þ.m.t. líklegu áhorfi eða hlustun á tímamarki birtingar, lengd auglýsingar, tegund auglýsingar, og öðrum þeim atriðum sem sérstaka þýðingu geta haft.
Við verðlagningu kostunar skal RÚV taka mið af birtingartíma, líklegu áhorfi og öðrum þeim atriðum sem sérstaka þýðingu geta haft.

4. gr.
Við veitingu afsláttarkjara eða annarra kjara til viðskiptavina samkvæmt gildandi verðskrá skal meðal annars tryggja:
a) Að magnafsláttur, svo sem hærri afsláttur vegna mikilla viðskipta og kaupaukar í einstökum samningum byggi á viðskiptalegum forsendum og standi öllum til boða sem eins er ástatt um.
b) Að veiting afsláttarkjara eða annarra sambærilegra kjara sé ekki bundin óeðlilegum skilyrðum sem geta talist til þess fallin að hafa útilokunaráhrif gagnvart samkeppnisaðilum RÚV á sjónvarps- og hljóðvarpsmarkaði.
c) Að gætt sé viðeigandi jafnræðis.

5. gr.
RÚV er heimilt þegar sérstaklega stendur á, svo sem vegna breytinga á auglýstri dagskrá eða ófyrirséðrar eftirspurnar á tilteknum birtingartíma sem raska almennum verðforsendum, að víkja frá gildandi verðskrá. Þegar svo stendur á skal RÚV leitast við að tryggja að slík kjör séu aðgengileg öllum viðskiptamönnum félagsins.
Við ákvörðun einstakra viðskiptakjara samkvæmt 1. mgr. skal gætt þeirra sjónarmiða sem fram koma í gjaldskrá þessari eftir því sem við á.

6. gr.

Gjaldskrá þessi var samþykkt af RÚV þann 31. október 2013.

 

Kostanir á RÚV

RÚV býður kostun í samræmi við lög um Ríkisútvarpið, sjá 6. grein í "Auglýsingareglum" hér að ofan.

Kostunar er aflað á ýmsum stigum áður en dagskrárliður er sýndur. Í tilviki stórra viðburða, t.d. stórmóta í íþróttum, getur kostunar verið leitað fljótlega eftir að sýningarréttur hefur verið tryggður. Innlendir dagskrárliðir eru oft kynntir kostendum á framleiðslustigi.

Ef sýningar eru hafnar á ókostuðum þáttum lýkur jafnan sölukynningu á þeim. Viðskiptavinir geta þó óskað eftir því að fá að kosta viðkomandi þætti og tekur auglýsingadeild til athugunar hvort það er framkvæmanlegt.

RÚV leitast að kynna auglýsendum með skýrum hætti hvaða kostanir standa til boða hverju sinni. Auglýsingadeild veitir einnig upplýsingar um hvaða kostanir standa til boða lengra fram í tímann, þótt þær séu ekki komnar í söluferli.

Kostanir sem til sölu eru hverju sinni eru kynntar með viðmiðunarverði. Í einstökum tilfellum er þess óskað að kostendur sendi inn óskir um að vera kynnt viðkomandi kostun fyrir tiltekna lokadagsetningu. Ekki eru veittir veltutengdir afslættir af kostunum. Séu fleiri en einn kostandi að viðkomandi dagskrárlið, njóta þeir fulls jafnræðis og sambærilegra kjara. 

Vakin er athygli á því að í ákveðnum tilfellum fylgja ákvæði um kostanir með þegar efni er keypt. Slíkt er afar algengt með íþróttefni, sérstaklega stórmót í íþróttum.

Verð á kostunum er háð umfangi dagskrárgerðar, kostnaði, kynningu og staðsetningu í dagskrá. Auglýsingadeild veitir upplýsingar um þær kostanir sem í boði eru hverju sinni. Alla jafna eru kostanir kynntar auglýsingastofum og öðrum viðskiptavinum með sérstökum kynningum þar sem fram kemur verð og umfang kostunar.  

Dæmi um verðviðmið kostana og dæmi um kostanir á næstunni, verð fyrir hvern kostanda:

Íburðarmiklir dagskrárliðir:  Frá 200.000 kr.  á hvern þátt.
Dæmi:  Ófærð 550.000 kr á þátt. 

Stórmót: Frá 300.000 kr.  á hvert mót. 
Dæmi: HM og EM í frjálsum íþróttum, HM og EM í sundi, HM og Bikarkeppni í körfubolta og HM í íshokkí öll á 300.000kr. Íburðarmeiri mót eru kynnt sérstaklega.

Einstakir viðburðir, svo sem innlendir íþróttaviðburðir: Frá 100.000 kr.  á hvern viðburð.
Dæmi: Landsleikir í körfubolta, 125.000 kr á hvern leik.

 

Afsláttarkjör

Föst afsláttarkjör viðskiptavina grundvallast á viðskiptum við RÚV síðustu tólf mánuðina þar á undan. Einnig er litið til viðskiptasögu síðustu þriggja ára þannig að tímabundnar sveiflur á viðskiptum raski ekki afsláttarkjörum um of.

Afsláttartaflan sýnir þann ramma sem unnið er út frá við ákvörðun á föstum afsláttum. Hún er þó ekki tæmandi, heimilt er að framreikna hana með sömu hlutfallsreikningum ef brúttóviðskipti eru meiri. 

Til viðbótar föstum afsláttum getur bæst við styrking í formi fríbirtinga sem nemur 8-12% af heildarandvirði birtingaráætlunar viðkomandi auglýsanda. Slík styrking er einungis veitt ef RÚV má stjórna staðsetningu þessara birtinga í dagskrá og ef birtingartímabil auglýsanda nær yfir skammvinnt tímabil. 

Afsláttur sem tengist tímabundnum tilboðum, sem getur verið hærri en skv. afsláttartöflum, bætist ekki við föst afsláttarkjör. Slík tilboðskjör (tímabundin tilboð) eru aðgengileg öllum viðskiptamönnum.

Með því að gera samkomulag um þjónustulaun við RÚV ganga auglýsingastofur inn í viðskipta- og þjónusturamma, m.a. um ofangreindar útfærslur á kjörum.

Til að auðvelda nýjum fyrirtækjum aðgang að markaði er heimilt að semja við ný fyrirtæki um framvirkan afslátt miðað við áætluð viðskipti.

Viðskipti innan eins mánaðar er heimilt að margfalda með 11 til að finna afsláttarþrep fyrir viðskiptin skv. afsláttartöflu. Gildir þá það afsláttarþrep þann mánuð sé það hærra en almenn afsláttarkjör auglýsandans segja til um.

Afsláttarkjör þessi gilda ekki um stjórnmálaflokka, góðgerðarsamtök, menningaraðila og fjölmiðla. Öllum stjórnmálasamtökum bjóðast sömu afsláttarkjör óháð umfangi viðskipta og er sá afsláttur 25%. Góðgerðarsamtök og menningaraðilar geta samið sérstaklega um afslætti, t.d. í söfnunum. 

RÚV vekur athygli viðskiptavina á því að í sjónvarpi tíðkast punktakaup  (GRP), þar sem ekki er veittur prósentuafsláttur af viðskiptum eins og tíðkast í veltutengdum afsláttum. Innan tíðar verður svipað kerfi innleitt í útvarpi líka (CPM).

 

 

Útvarpsauglýsingar

 

 

Brúttóviðskipti á ári

Afsl.

 

1.250.000 kr.

15%

 

2.500.000 kr.

20%

 

3.750.000 kr.

25%

 

5.000.000 kr.

30%

Allar tölur eru án vsk.