Raddir heyri' eg ótal óma

Sigurður Helgason 3/3

Í undanförnum þáttum þessarar þáttaraðar hefur verið fjallað um bræðurna Jónas og Helga Helgasyni sem sömdu vinsæl lög og áttu mikinn þátt í því byggja upp íslenskt tónlistarlíf á 19. öld. Sonur Helga, Sigurður Helgason, var einnig tónskáld og er einkum þekktur fyrir lagið „Skín við sólu Skagafjörður". Sigurður fæddist 1872 og eru því á þessu ári 150 ár frá fæðingu hans. Hann fór ungur til Vesturheims og bjó þar til dauðadags 1958, en heimsótti Ísland árið 1947. Þriðji þáttur þáttaraðarinnar verður helgaður honum, leikin verða ýmis lög eftir hann og meðal annars verður flutt nýtt hljóðrit af lagi sem hann samdi við ljóð eftir frænda sinn, Helga Valtýsson. Einnig verða flutt brot úr ávarpi sem Sigurður flutti í útvarp í Íslandsheimsókn sinni 1947 og brot úr viðtali sem Finnbogi Guðmundsson tók við hann árið 1955. Umsjón með þættinum hefur Una Margrét Jónsdóttir og lesari er Guðni Tómasson.

Birt

22. sept. 2022

Aðgengilegt til

26. sept. 2023
Raddir heyri' eg ótal óma

Raddir heyri' eg ótal óma

Einhverjir mestu brautryðjendur í sögu íslenskrar tónlistar voru bræðurnir Jónas Helgason (1839-1903) og Helgi Helgason (1848-1922). Þeir voru iðnaðarmenn, Jónas járnsmiður og Helgi trésmiður, en höfðu báðir mikla tónlistarhæfileika. Jónas stofnaði árið 1862 Söngfélagið Hörpu, sem var lengi helsti kór í Reykjavík, og 1877 varð Jónas Dómkirkjuorganisti, en Helgi stofnaði 1876 fyrstu íslensku lúðrasveitina: Lúðurþeytarafélag Reykjavíkur. Einnig sömdu þeir lög og er Helgi höfundur hinna alkunnu laga „Öxar við ána" og „Nú er glatt í hverjum hól", en Jónas samdi "Lýsti sól stjörnustól" sem oft er sungið við hátíðleg tækifæri. Sonur Helga, Sigurður Helgason (1872-1958), fluttist ungur til Vesturheims, en hann var einnig tónskáld og samdi m.a. lagið „Skín við sólu Skagafjörður". Á þessu ári eru 150 ár frá fæðingu Sigurðar og 100 ár frá andláti Helga föður hans. Þættirnir eru gerðir af því tilefni. Fyrsti þátturinn er helgaður Jónasi, annar þáttur Helga og hinn þriðji Sigurði. Ríkisútvarpið hefur látið hljóðrita eitt lag eftir hvern þeirra fyrir þættina, og eru það félagar úr Kór Langholtskirkju sem flytja lögin undir stjórn Magnúsar Ragnarssonar. Einnig verða flutt lög eftir Jónas, Helga og Sigurð úr hljóðritasafni útvarpsins. Umsjón með þáttunum hefur Una Margrét Jónsdóttir.