Morgunútvarpið vekur hlustendur með glóðvolgum fréttum og snarpri umfjöllun um samfélagsmál. Umsjónarmenn eru Guðrún Dís Emilsdóttir og Atli Fannar Bjarkason.
Morgunútvarpið hefur fjallað um ástandið í Minnesota undanfarið eftir að ICE-liðar skutu Alex Jeffrey Pretti og Renee Good til bana. Mótmælt er í Minneapolis og víðar í ríkinu og nú er andspyrnan farin að teygja sig til fleiri borga í Bandaríkjunum. Við settum okkur í samband við Dröfn Ösp Snorradóttur Rozas, íbúa í Los Angeles þar sem framgangi ICE-liða hefur verið mótmælt, og fræddumst nánar um stöðuna í Bandaríkjunum.
Fjöldi kynferðisbrotamála gegn börnum hafa komið upp undanfarið og hafa málin verið áberandi í fjölmiðlum. Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir, verkefnisstýra ofbeldisvarna og kynheilbrigðismála hjá Barnaheillum, kom til okkar og fór yfir hversu mikilvægt það er að vera vakandi fyrir rauðu ljósunum og með hvaða hætti má nálgast samtal við ung börn um málefnið. Barnaheill ætla að bjíða foreldrum upp á opið fræðsluerindi um kynferðisofbeldi gegn börnum fimmtudaginn 29. janúar klukkan 14 – 15.30. Fundurinn verður rafrænn og aðgangur er ókeypis.
Bandaríski klifurkappinn Alex Honnold klifraði án öryggisbúnaðar upp háhýsið Taipei 101,sem er 508 metra há bygging í Taiwan. Þetta vakti heimsathygli enda í beinni útsendingu á Netflix og við í Morgunútvarpinu veltum fyrir okkur hvað fær mann til að gera slíkt? Við fengum til okkar parið Þorgerði Þórólfsdóttur klifrara og stjórnarkonu í Klifurfélagi Reykjavíkur og Guðmund Frey Arnarson klifrara sem keppt hefur í klifri en situr í stjórn Klifursambands Íslands.
Ísland mætir Sviss á EM í handbolta klukkan 14.30 í dag. Strákarnir mæta eflaust spangólandi til leiks eftir frækinn sigur á Svíum á sunnudag. Við heyrðum í handboltasérfræðingnum Arnari Daða Arnarssyni úr Handkastinu og hann fór yfir leikinn framundan með okkur
Aðgengilegt til: Rennur ekki út.
Lengd: 1 klst. 50 mín.