
Valin myndskeið úr Landanum þar sem áhugaverðir staðir eru skoðaðir og merkilegir Íslendingar heimsóttir. Dagskrárgerð: Gísli Einarsson og Karl Sigtryggsson.
Ódýr leið til að fægja silfrið. Eva Matthildur Benediktsdóttir, nemandi í Hússtjórnarskóla Hallormsstaðar segir að það sé óþarfi að kaupa rándýr hreinsiefni sem hafa mengandi áhrif til að fægja silfur. Þau fægja silfrið upp úr blöndu sem þau búa til sjálf úr efnum sem eru til í flestum eldhúsum. Þau setja álpappír í botninn á fati eða potti og hella svo einum lítra af sjóðandi vatni út í. Í þetta fara svo fjórar matskeiðar af matarsóda og fjórar af salti. Síðan er silfrið sett út í og það verður eins og nýtt á örskotsstundu. Landinn leit við í Hússtjórnarskóla Hallormsstaðar á aðventunni og fékk að fylgjast með ýmsu sem tengist jólaundirbúningi. Þar var verið að gera jólaskraut að finnskum sið, steikja laufabrauð, föndra úr reyniberjum og sitthvað fleira.