17:10
Útúrdúr
Tími til að bregða sér út úr dúr!
Útúrdúr

Í þáttunum er fjallað um klassíska- og samtímatónlist í víðum skilningi og leitast við að kynna hana á skemmtilegan, aðgengilegan og fjölbreyttan hátt. Tónlistarfólk kemur saman í stúdíói, spjallar um tónverk og leikur þau líka. Þá er farið á stúfana og spjallað við sérfræðinga og áhugamenn úr ýmsum áttum. Þótt hver þáttur hverfist um ákveðið grunnþema er formið frjálslegt og talsvert um útúrdúra. Þannig leiðir spjall um Mozart yfir í umfjöllun um Neanderthalsmenn eins og ekkert sé eðlilegra og viðtal við fiðlusmið endar hreinlega í helvíti (eins og það birtist á málverki eftir hollenskan meistara frá endurreisnartímanum).

Að kalla eina tegund tónlistar „klassíska“ er að mati umsjónarmanna þáttanna eitt versta auglýsingatrix sögunnar. Tónlistin á ekki að vera safngripur og hún er hvorki heilög né hafin yfir gagnrýni. Í þáttunum er ætlunin að færa þessa tegund tónlist niður af stallinum, skoða hana frá ýmsum hliðum og berjast gegn þeirri ranghugmynd að maður þurfi einhvers konar meirapróf til þess að mega hafa skoðun á henni.

Á meðal tónlistarmanna sem fram koma eru Kristinn Sigmundsson, Sigrún Eðvaldsdóttir, Bryndís Halla Gylfadóttir, Gunnar Guðbjörnsson og Megas. Þá bregður fyrir erlendum meisturum á borð við Alfred Brendel, Martin Fröst og Jerome Lowenthal. Fræðimenn við Oxfordháskóla, Háskólann í Reading og við Juilliardskólann í New York leggja svo til fleiri víddir í umræðuna.

Umsjónarmenn eru Víkingur Heiðar Ólafsson og Halla Oddný Magnúsdóttir.

Í fyrsta þætti Útúrdúrs komum við aðeins inn á hvernig Mozart hefur verið notaður í viðbjóðslegum tilgangi í gegnum tíðina. Í þættinum heyrum við Guðrúnu Hlín Þórarinsdóttur segja frá móður sinni, Margréti Eiríksdóttur píanóleikara, og hvernig hún hélt áfram að spila Schubert þrátt fyrir minnistap. Fram komu: Roger Scruton, heimspekingur og listfræðingur. Steven Mithen, fornleifafræðingur. Guðrún Hlín Þórarinsdóttir. Gunnar Guðbjörnsson, söngvari.

Var aðgengilegt til 20. júlí 2023.
Lengd: 46 mín.
e
Endursýnt.
Dagskrárliður er textaður.
,