WOW þarf að borga bætur vegna seinkunar

07.08.2017 - 15:54
Mynd með færslu
 Mynd: Alec Wilson  -  Flickr
Samgöngustofa hefur gert flugfélaginu WOW að borga sjö farþegum, hverjum um sig, 50 þúsund krónur í bætur vegna seinkunar sem varð á flugi félagsins frá Amsterdam til Keflavíkur í júní á síðasta ári. Seinkunina mátti rekja til yfirvinnubanns flugumferðarstjóra en það varð til þess að flugið frá Keflavík tafðist um þrjá og hálfa klukkustund.

WOW sagði í skýringum sínum til Samgöngustofu að vegna yfirvinnubannsins hafi ekki náðst að manna stöður sem til þurfti til að flugturninn væri starfshæfur og öryggiskröfum fullnægt.

Starfsmenn WOW hafi reynt að gera allt sem í þeirra valdi stóð til að koma vélinn af stað sem allra fyrst frá Amsterdam - þeir hafi þannig verið eina og hálfa klukkustund að gera vélina klára.  Þá bendir flugfélagið á að það sé með aðalstarfsstöð sína á Íslandi og ekki sé hægt að ætlast til þess að það sé með varaflugfélagar til staðar á öllum áfangastöðum sínum til þess að koma í veg fyrir seinkanir.

Í úrskurði Samgöngustofu kemur fram að áhrif svokallaðra víxlverkana falli ekki í flokk óviðráðanlegra aðstæðna. Því þurfi ekki að leggja mat á það hvort þær aðstæður, sem urðu til þess að seinkun varð á fyrra fluginu, teljist vera óviðráðanlegar aðstæður. Var flugfélaginu því gert að greiða farþegunum sjö hverjum um sig tæpar 50 þúsund krónur.

 

 

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV