„Vörubíllinn er að keyra yfir okkur“

19.04.2017 - 18:20
Ljóðabókin Óratorrek – ljóð um samfélagsleg málefni, eftir Eirík Örn Norðdahl kemur út í dag, og hefur höfundurinn af því tilefni blásið til útgáfuhófs í Mengi.

Þar munu höfundurinn sjálfur, Ásta Fanney Sigurðardóttir, Skúli mennski, Jón Örn Loðmfjörð og leikhópurinn Óskabörn ógæfunnar hittast til að lesa, flytja, afflytja, afmynda, syngja og inspírerast af ljóðum bókarinnar. Eiríkur Guðmundsson ræddi við nafna sinn Örn Norðdahl í Lestinni og spurði hann fyrst hvort að þetta væru virkilega ljóð í bókinni. „Ég svara þessari spurningu venjulega með tilvitnun í Ludwig Wittingstein: „Ekki gleyma því að þótt ljóð séu ort á tungumáli upplýsinga, þá taka þau engan þátt í þeim málaleik að miðla upplýsingum,“ segir Eiríkur og bætir því við að lítið sé ýtt á enter-takkann í bókinn og í henni sé mikið magn af texta, ljóðið sé performans á tungumálinu.

Harmur heimsins er þarna

Eiríkur Örn segir bókina var allt í senn vakningu, ákall og viðbragð en kannski fyrst og fremst afleiðingu þess að vera í samtímanum. Bókmenntir og listir snúist að miklu leyti um hvað maður innbyrði, lesi maður mikinn Dostojevsky endi maður yfirleitt á því að skrifa eins og hann. „En nú lifir maður í samtíma þar sem maður er á facebook kannski 10 af sínum vökustundum á hverjum degi og þá innbyrðir maður alveg óhemju mikið af svona tungumáli. Það sem mig langaði að gera var að performera það tungumál, finna talanda þar sem ég gæti fundið og farið í gegnum samtímann, án þess ég væri beinlínis að segja neitt um hann annað en, þú veist það er lítið um hann sem við vitum ekki. Ég meina harmur heimsins hann er allur þarna, frá minnstu viðkvæmustu ástarsorgum yfir í heimsenda.“

Ljóðin í bók Eiríks eru bæði af íronískum og alvörugefnum toga, hann gerir grín að samtímanum en talar stundum beint frá hjartanum. Fyrsta ljóðið sem rataði í bókina byrjaði hins vegar sem facebook status: „Ég var í einhverju mjög kaldhæðnislegu og sínísku pirringsstuði, og endaði á að skrifa status, og þar varð þessi talandi órasjon.“ Eiríkur Örn segist eiga erfitt með að greina þessa kennd en hún hafi skotið upp kollinum síðar þegar hann orti til konu sinnar og dóttur, þá hafi gosið upp viðkvæmar tilfinningar sem oft er ort um í klassískum kveðskap. „Hlutir sem ég hef átt erfitt með að nálgast sjálfur því ég hef skrifað svo mikið ofbeldi í gegnum tíðina, og það er mikið ofbeldi í þessari bók líka. En þessi talandi opnaði leið fyrir mig að hjartanu, svo ég gerist nú væminn.“

Í Óratorrek er ort um fátækt, ábyrgð, Gaza, ástina, kebab og guð, svo fátt eitt sé nefnt. Eitt ljóðanna fjallar um forgangsröðun þar sem fólki er uppálagt að horfast í augu við þjáningarnir, að hlífa sér við þeim sé illska. Stendur Eiríkur við þetta? „Jú að eins miklu leiti og ég þori því. Þetta ástand er náttúrulega að standa í bílljósunum og ætla að stara niður vörubíl sem er að koma að keyra mann niður. Hugsanlega getum við ekki gert annað en að horfast í augu við það að vörubíllinn er að keyra yfir okkur.“

Hendir handsprengju inn í samræðuna

Eiríkur hugsar textann í bókinni eins og flest sem hann skrifar sem innlegg í samræðu. „Ég hef alltaf upplifað menninguna sem mjög stóra og mikilvæga samræðu mannsins við sjálfan sig, ég vil bara henda þessu inn eins og hverri annarri handsprengju og sjá hvað gerist, og vonin er nátúrulega alltaf sú að maðurinn skilji sjálfan sig betur í gegnum menninguna. Hið eigingjarna er að ég vinni úr því sem ég tek inn og hugsanlega skilji sjálfan mig betur, en ég er ekki einu sinni viss um að það koma menningunni við, það er meira prívat.“

Eiríkur Guðmundsson ræddi við Eirík Örn Norðdahl um ljóðabókin Óratorrek en útgáfuhóf fyrir hana fer fram í Mengi í kvöld. Hægt er að hlusta á viðtalið í spilaranum fyrir ofan þar sem Eiríkur Örn flytur einnig hluta af ljóði um hið mannlega ástand.