Vill skoða að setja stjórn yfir Landspítala

18.05.2017 - 21:54
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Meirihluti fjárlaganefndar hvetur til þess að kannaðir verði kostir þess að stjórn verði sett yfir Landspítalann. . Samkvæmt heimildum fréttastofu leggur meirihluti nefndarinnar til að framhaldsskólar þurfi ekki að sæta tveggja prósenta aðhaldskröfu og að Háskóli Íslands njóti sömu aukningar framlaga og er á yfirstandandi ári

Fjárlaganefnd afgreiddi ríkisfjármálaáætlun úr nefndinni í dag.   Ekki eru gerðar tillögur um að heildartekjur eða útgjöld ríkissjóðs í áætluninni breytist en þó er í athugasemdum lagt til að fjármunir verði færðir til. Meðal annars vegna athugasemda frá öðrum þingnefndum. 

Haraldur Benediktsson, formaður fjárlaganefndar vildi lítið segja um nefndarálitið - það yrði gert opinbert á morgun. „Ég legg áherslu á að þetta er ríkisfjármálaáætlun en ekki fjárlög þannig að við fjöllum um hana með þeim hætti. Það er óhætt að segja að við gerum ekki breytingar á þingsályktuninni sjálfri sem kom en við gerum athugasemdir og ábendingar til ríkisstjórnar til úrvinnslu fyrir næstu fjárlagagerð og við gerð næstu fjármálaáætlunar.“

Heimildir fréttastofu herma að nefndin leggi til að stjórnvöld skipi stjórn yfir Landspítalann. Í því felist aukið eftirlit með rekstri spítalans. Samkvæmt heimildum fréttastofu leggur meirihluti nefndarinnar til að framhaldsskólar þurfi ekki að sæta tveggja prósenta aðhaldskröfu og að Háskóli Íslands njóti sömu aukningar framlaga og er á yfirstandandi ári.

 

 

Einar Þorsteinsson
Fréttastofa RÚV