Vill hrista upp í stöðnuðum stjórnmálum

28.01.2016 - 11:31
„Hefðbundnu flokkarnir ná ekki til unga fólksins – og almennings“, segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari Sjálfstæðisflokksins. Hún var gestur Morgunvaktarinnar á Rás 1. „Stjórnmálin virka óspennandi og óskilvirk. Það er mikið karpað um tæknileg atriði og fortíðina – í stað þess að hugsa um framtíðina“. Hún er ekki hrifin af því að litið sé á þingmennsku sem ævistarf. Fyrir vikið sé Alþingi fráhrindandi í augum ungs fólks.

Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur skaut upp á stjörnuhimin stjórnmálanna í haust þegar hún var kjörin ritari Sjálfstæðisflokksins í stað Guðlaugs Þórs Þórðarsonar. „Ég held að Sjálfstæðisflokkurinn sé til í að líta eigin barm, skoða hvað hægt sé að gera betur. Fólk er tilbúið að taka ábyrgð á eigin lífi og vilji fá sitt frelsi til þess. Sjálfstæðisflokkurinn þarf að móta betur sína framtíðarstefnu, sem byggist á einstaklingsfrelsi“.

En það er enn verið að berja flokkinn vegna mistaka í fortíðinni. Hvað segir Áslaug Arna um það? „Já, það er verið að gera það. Það er verið að berja alla fyrir fortíðina, og ræða fortíðina út í hið óendanlega. Veit ekki hvort ég á að svara fyrir eitthvað sem gerðist áður en ég fékk bílpróf. Maður reynir að horfa fram á við og ég held að allir þurfi að fara í þann gír. Fólk vill það frekar“.

Áslaug Arna viðurkennir að hún hafi orðið vör við aldursfordóma. Ýmsir hafi gert athugasemdir sem byggist á því hversu ung hún er, fædd árið 1990, en hún lætur það ekkert á sig fá: „Maður er mættur til að hrista upp í hlutunum, reyna að breyta. Það er allt fast og maður gengur á veggi. Stjórnmálin eru stöðnuð og litið er á þingmennsku sem ævistarf. Alþingi er því ekki áhugaverður fyrir ungt fólk. Það versta við Alþingi í augum ungs fólks er að þeir sem fara þangað inn virðast fastir þar til æviloka“, sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari Sjálfstæðisflokksins, á Morgunvaktinni. 

Mynd með færslu
Óðinn Jónsson
dagskrárgerðarmaður
Morgunvaktin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi