Vilja saumastofumanninn í Vík í gæsluvarðhald

19.02.2016 - 15:45
Mynd með færslu
 Mynd: Þórir Níels Kjartansson  -  Mýrdalshreppur
Lögreglan á Suðurlandi hefur óskað eftir því við Héraðsdóm Suðurlands að karlmaður frá Sri Lanka, sem er grunaður um að hafa haldið tveimur konum í vinnuþrælkun á saumastofu sinni í Vík, verði úrskurðaður í gæsluvarðhald. Dómari er nú að fara yfir þessa kröfu lögreglunnar, segir Þorgrímur Óli Sigurðsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Selfossi.

Málið hefur vakið mikla athygli en lögreglan á Suðurlandi, í samstarfi við lögregluna á Suðurnesjum, höfuðborgarsvæðinu, sérsveit ríkislögreglustjóra og ríkisskattstjóra réðst í aðgerðirnar í gærdag, þar sem konurnar voru frelsaðar. Þorgrímur Óli vildi ekki gefa upp hvar konurnar væru niðurkomnar en sagði þó að öryggis þeirra væri gætt. 

Lögreglan hefur áður þurft að hafa afskipti af manninum. Fyrir áramót skoðaði hún saumastofu mannsins að beiðni Verkalýðsfélags Suðurlands vegna gruns um að þar væri að störfum fólk án atvinnuleyfis. Því var síðan vísað úr landi. Ekki liggur fyrir hvort konurnar tvær hafi þá verið að störfum hjá manninum.

Fram kom í yfirlýsingu frá Icewear, sem rekur Víkurprjón í Vík, að maðurinn og fyrirtæki hans hefði verið undirverktaki hjá Víkurprjón. Þeim samningi hefði nú verið rift. Fyrirtækið fullyrti að það hefði aldrei vitað af þessum starfsháttum sem maðurinn er grunaður um.