Við eigum ekkert annað land

02.02.2016 - 16:45
Áhugafólk um náttúruvernd beinir nú sjónum sínum æ meira að því að endurheimta framræst land. Minningarsjóður Guðmundar Páls Ólafssonar, Auðlind, styrkir verkefni í því skyni. Þröstur Ólafsson, hagfræðingur og bróðir Guðmundar Páls, lýsti þessari baráttu á Morgunvaktinni á Rás 1. Um helmingur alls votlendis hefur verið ræstur fram - að stærstum hluta án nokkurrar gagnsemi. En þessi atorkusemi hefur á hinn bóginn stóraukið losun gróðurhúsalofttegunda.

Þeir sem vilja stuðla að náttúruvernd og berjast um leið gegn loftslagsbreytingum fagna í dag alþjóðlega votlendisdeginum. En þennan dag, 2. febrúar var samningur undirritaður í írönsku borginni Ramsar um verndun votlendissvæða.

Augu fólks eru að opnast 

Ekkert eitt stuðlar að jafn mikilli losun gróðurhúsalofttegunda eins og framræst land. Búið er að grafa um 35 þúsund kílómetra af skurðum hérlendis í þeim tilgangi að ræsa fram mýrar og annað votlendi. Aðeins um 14% landsins sem sem fengist hefur með þessari aðferð er nýtt til túnræktar en mögulegt væri með góðu móti að hækka það hlutfall í 20%. En 80% eru bara til ógagns og valda mikilli losun gróðurhúsalofttegunda, segir Þröstur Ólafsson. Hann telur að augu fólks séu að opnast, ekki síst vegna umræðunnar um loftslagsmál, en líka vegna náttúruverndarsjónarmiða. Þó er enn verið að grafa skurði.

„Við erum að breyta landinu mjög mikið með þessu. Ef við keyrum austur að Selfossi sjáum við eins til tveggja ára gamla skurði. 95% af öllu votlendi Suðurlands hefur verið ræst fram. Helmingur af votlendi Íslands. Hugsaðu þér atorkuna í þessu!“ Þröstur bendir á að grafnir hafi verið skurðir í stað þess að girða land, og veittir styrkir til þess. „Þá hafa menn ekkert verið að hugsa um hvaða áhrif þetta hefði á landið, fyrir loftslagið eða nokkurn hlut.“

Vonast til að vægi náttúruverndar verði meira

Þröstur Ólafsson vonast til að náttúruverndarmálin fái þann sess sem þau eiga skilinn í alþingiskosningum á næsta ári. „Við eigum ekkert annað land. Þó að sumir vilji virkja og virkja, þá er okkar aðal atvinnugrein, ferðaþjónustan, ekki að sækjast eftir því. Menn koma ekki hingað til að skoða virkjanir, heldur þetta land. Ef við ætlum að halda áfram að ræsa fram og virkja verður hér allt öðruvísi samfélag en er núna. Við verðum miklu fátækari þjóð,“ segir Þröstur Ólafsson, hagfræðingur. Sjálfur var hann í stjórnmálum og starfaði í stjórnsýslunni og taldi í upphafi að hófleg stóriðja hefði góð áhrif á íslenskt hagkerfi. 

„En ég er algjörlega á móti því að gera hana að meginstofni opinberrar efnhagsstefnu, eins og verið hefur síðustu 30 árin. Þetta er einhliða atvinnugrein, tengd auðlindum. Verðmætaaukinn verður ekki til hér, heldur erlendis. Við fáum ákaflega lítið: laun, framkvæmdir á byggingartíma. Skattar af þessu eru litlir. Þetta er orðið alltof mikið og við eigum að hætta þessu,“ segir Þröstur Ólafsson um stóriðjustefnuna. 

Auðlind heldur styrktarfund í dag kl. 17.00 í sal Þjóðminjasafnsins. Þar flytur m.a. Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, ávarp. 

 

Mynd með færslu
Óðinn Jónsson
dagskrárgerðarmaður
Morgunvaktin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi