Veruleg aukning vegna útlendingamála

12.09.2017 - 12:09
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV  -  RÚV Anton Brink
Fjárheimildir til útlendingamála rúmlega tvöfaldast milli ára samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs sem birt var í morgun. Þær hækka úr 1,8 milljörðum í 3,7 milljarða. Við gerð síðustu fjárlaga var gengið út frá því að útgjöld vegna útlendingamála myndu lækka um fjórðung eftir mikla aukningu árið 2016. Nú er gert ráð fyrir 1,6 milljörðum króna aukalega vegna fjölgunar flóttamanna.

Að auki hækkar framlag til kærunefndar útlendingamála um 171 milljón króna svo málshraði nefndarinnar verði ásættanlegur.

Undir málaflokkinn fellur starfsemi Útlendingastofnunar og Kærunefndar útlendingamála. Fram kemur í fjárlagafrumvarpinu að kostnaður vegna þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd hafi farið fram úr fjárheimildum ársins vegna verulegrar vanáætlunar í fjárlagagerð og áframhaldandi fordæmalausrar fjölgunar umsókna frá síðari hluta árs 2016.

Kostnaður vegna útlendingamála nam 2,7 milljörðum króna í fyrra en fjárheimildir ársins voru nær milljarði lægri, 1,7 milljarðar. Nú eru heimildir næsta árs 3,7 milljarðar samkvæmt fjárlagafrumvarpinu.

Reynt verður að lækka kostnað með því að afgreiða umsóknir hraðar en áður. Þó getur hraðari málsmeðferð haft meiri kostnað í för með sér í byrjun þó kostnaðurinn lækki síðar.

 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV