Veröld vígð í dag

20.04.2017 - 19:48
Veröld, Hús Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur.
 Mynd: RÚV
Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum fékk í dag varanlegt aðsetur í Veröld - húsi Vigdísar. Sjálf segir hún stofnunina geta hjálpað til við að viðhalda íslenskunni auk þess sem ferðamenn geti komið og fundið sitt tungumál.

 

Vígsluathöfn hússins var haldin í Háskólabíói í dag og var þar fjallað um hvernig erlend tungumál opna leiðir í aðra menningarheima. Það sást kannski best þegar Brynhildur Guðjónsdóttir söngkona bar fyrir sig sjö slík í söng.  Að lokinni athöfninni var svo gengið fylktu liði yfir í hið nýja hús og nutu kórsöngs í leiðinni.

Húsið er á þremur hæðum auk jarðhæðar, en þar er tenging undir Suðurgötu við Háskólatorg. Þá verða einnig fyrirlestrarsalir, upplýsinga- og fræðslusetur og sérstakt heimasvæði tungumála. Stofnunin er nefnd eftir Vigdísi vegna ötuls starfs hennar í þágu tungumála. Hún er ánægð með húsið og hefur háleit markmið fyrir það. „Að allir sem heimsækja Ísland heimsæki þetta hús til að finna þar þeirra tungumál - eða hér. Við myndum gera það ef svona stofnun væri einhvers staðar erlendis, fara að heimasækja það til að gá hvort okkar íslenska væri þar.“

 

Auður Hauksdóttir forstöðumaður stofnunarinnar segir tækifærin mörg sem húsið veitir í tungumálarannsóknum, kennslu og annarri starfsemi. „Við getum verið með menningarhátíðir er. og gætum kynnt til dæmis Grænland, svo dæmi sé tekið, næsta nágranna okkar sem við vitum skammarlega lítið um. En okkur langar líka til að hafa hér lifandi starfsemi sem verður opin Íslendingum öllum,. ferðamönnum og líka, ekki síst ungmennum.“

Vigdís er ekki vafa um að húsið hjálpi til við að vernda íslenskuna. „Við erum nágrannar húss íslenskrar tungu. Ég bíð eftir að húsið rísi þar, og þar verði góð samvinna milli þessara tveggja stofnana.“

 

Mynd með færslu
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV