Veitur töldu ekki þurfa að láta vita af skólpi

09.07.2017 - 19:49
Skólp flæddi í sjóinn við Faxaskjól í um sautján daga, en skólpdælustöðin þar hefur verið biluð í næstum mánuð. Framkvæmdastjóri Veitna telur að fyrirtækinu hafi ekki borið að upplýsa almenning um skólpmengunina.

Skólp flæddi í fjöruna í meira en viku, frá 13. júní til 20. júní, og svo aftur í tíu daga, frá 26. júní til 5. júlí. Á hverri sekúndu flæddu 750 lítrar af óhreinsuðu skólpi út í sjóinn, samtals mörg hundruð milljónir lítra. 

Ekki óeðlilegt að kerfið bili

Prófessor í umhverfis- og auðlindarétti segir það skýrt í lögum um upplýsingarétt að það hefði átt að upplýsa almenning um að það gæti verið hætta á mengun á svæðinu. Gagnrýnt hefur verið að ekki hafi verið tilkynnt um bilunina en fyrst var greint frá henni eftir að fréttamaður RÚV komst á snoðir um skólpmengunina. Borgarstjóri og borgarfulltrúar Reykjavíkur fréttu fyrst af málinu í fjölmiðlum. Inga Dóra Hrólfsdóttir, framkvæmdastjóri Veitna, segir að ekki hafi verið talin ástæða til þess að láta borgaryfirvöld vita, frekar en aðra. „Þetta er ekki einstakt dæmi. Þetta er ekkert sem er þannig lagað óeðlilegt, þetta gerist í rekstri fráveitukerfa og í rauninni myndi það æra óstöðugan að senda þeim tilkynningu í hvert skipti sem neyðarlúga opnast í borginni. En við þurfum að skoða við hvaða mörk við miðum, hvenær við þurfum að upplýsa og hvenær ekki, og hvenær við viljum upplýsa og hvenær ekki,“ segir Inga Dóra.

Það getur varla verið daglegt brauð að það sé dögum saman opin neyðarlúga í fráveitudælustöð? „Nei, það er alls ekki daglegt brauð.“

 

Í 10. grein laga um upplýsingarétt um umhverfismál segir að stjórnvöldum sé ævinlega skylt að hafa frumkvæði að upplýsingagjöf sé ástæða til að ætla að frávik vegna mengandi efna í umhverfi geti haft í för með sér hættu eða skaðleg áhrif á umhverfi eða heilsu fólks eða dýra. 

Þarna er vitað að það eru milljónir lítra að streyma út af skólpi, hefði ekki verið ástæða til að ætla að það gæti verið hætta á að mengandi áhrifum vegna þess og þar af leiðandi nauðsynlegt að láta vita? „Það hefði ekki verið ástæða til að ætla það, einfaldlega vegna þess að sýnatökur Heilbrigðiseftirlitsins, sem eru mjög faglegar, gáfu ekki vísbendingar um það, þess vegna má segja að þetta eigi ekki við í þessu tilfelli, þar sem að dýrum eða mönnum stóð ekki hætta af,“ segir Inga Dóra.

En hvíldi ekki skylda á Veitum að upplýsa almenning, burtséð frá því hvað Heilbrigðiseftirlitið segir? „Nei, við teljum ekki svo vera.“

Saurgerlamagn mældist yfir mörkum í fjörunni austan við skólpdæluna, en eftir því sem lengra dró frá var magnið minna. Heilbrigðiseftirlitið segir engar líkur á að skólpmengun berist í Nauthólsvík.