Veit ekki hvort stjórnarmenn mæta í Straumsvík

02.03.2016 - 07:49
Mynd með færslu
 Mynd: Hallgrímur Indriðason  -  RÚV
Byrjað verður að skipa út áli frá álverinu í Straumsvík um hádegisbil í dag að sögn Ólafs Teits Guðnasonar, upplýsingafulltrúa Rio Tinto á Íslandi. Það veltur þó á því hvernig gengur að afferma skipið. Ólafur segist ekki vita hvort stjórn félagsins muni taka þátt. Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu komst að þeirri niðurstöðu í gærkvöld að 15 yfirmenn mættu ganga í störf hafnarverkamannanna

Þetta eru forstjóri, sex framkvæmdastjórar, tveir staðgenglar framkvæmdastjóra, verkstjóri og fimm stjórnarmenn fyrirtækisins.

Kolbeinn Gunnarsson, formaður Hlífar, segir þessa niðurstöðu sýslumannsins hafa komið sér á óvart.  „Við töldum að þarna væru þrír stjórnendur sem mættu ganga í þessi störf - forstjóri, framkvæmdastjóri flutningasviðs og verkstjóri. Það kom mér á óvart að þarna væri verið að opna á framkvæmdastjóra og staðgengil framkvæmdastjóra auk þess sem stjórn Rio Tinto má vinna í þessum útflutningi.“

Kolbeinn segist ekki vita hvort hann eigi eftir að sjá stjórnarmenn mæta en meðal þeirra eru Katrín Pétursdóttir, forstjóri Lýsis og Þórður Ragnarsson lögfræðingur í atvinnuvegaráðuneytinu. „Þarna er verið að kalla til fólk sem hefur aldrei hefur unnið svona vinnu eða komið nálægt henni þannig að þetta kemur okkur verulega á óvart.“