Varar við fjárfestingum í United Silicon

19.04.2017 - 09:08
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Ef það er þannig að lífeyrissjóðir ætla að fjárfesta meira í kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík, „þá fyndist mér það ekki góður kostur fyrir lífeyri almennings. Ég get ekki séð að þetta sé góður fjárfestingakostur hvað það varðar,“ segir Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra. 

Loka ætti verksmiðju United Silicon í Helguvík, nái fyrirtækið ekki að uppfylla þau skilyrði sem því eru sett. Þetta kom fram í máli umhverfisráðherra á Morgunvaktinni á Rás 2 í morgun. Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra segir ennfremur fjármögnun kísilverksmiðju United Silicon vera umhugsunarefni.

„Fyrirtækið er fjárþurfi og nær ekki að stemma stigu við þeim umkvörtunum sem Umhverfisstofnun hefur sett fram. Það hefur verið að biðja um fresti, ekki fengið og hefur ekki getað brugðist við af þeim mætti sem við hefðum viljað. Þá þá fer maður auðvitað að hugsa til þess: er fólk ekki nógu vel efnum búið til þess að geta gert það? En auðvitað er það ekki hlutverk Umhverfisstofnunar eða einhverra opinberra ferla að vera að pæla í því. En ég hef lýst því yfir sem stjórnmálamaður og sem kjörinn fulltrúi almennings í landinu, að ef það er þannig að t.d. að lífeyrissjóðir ætla að fjárfesta þarna meira þá fyndist mér það ekki góður kostur fyrir lífeyri almennings. Ég get ekki séð að þetta sé góður fjárfestingakostur hvað það varðar,“ segir Björt.