Vantar nýja landskönnun á mataræði

07.09.2017 - 10:48
Rannsóknarstofa í næringarfræði, sem Háskóli Íslands og Landspítalinn standa að, fagnar 20 ára starfsafmæli. Þar er unnið mikilvægt starf til að meta áhrif fæðu á heilsufar fólks. Það verkefni verður stöðugt flóknara með stórauknu fæðuframboði. Hinsvegar vantar fjármuni til að sinna rannsóknum sem skyldi, eins og fram kom í máli Ingibjargar Gunnarsdóttur, prófessors og forstöðumanns, á Morgunvaktinni á Rás 1.

Þjóðin er ekki jafn einsleit og áður og fæðuframboð hefur margfaldast. „Það kallar á að við gerum mun reglulegri rannsóknir á mataræði þjóðarinnar. Við erum í miklu ströggli að fjármagna slíkar kannanir og rannsóknir. - Síðasta landsrannsóknin var gerð árið 2010. Margt hlýtur að hafa breyst. Maður hefur á tilfinningunni að meira sé um sérfæði en við vitum það svo sem ekki,“ sagði Ingibjörg Gunnarsdóttir, sem viðurkennir að hún vildi gjarnan fá meiri peningaframlög til rannsókna í afmælisgjöf – eða loforð um að gerð verði ný landskönnun á mataræði þjóðarinnar.

Rannsóknarstofa í næringafræði skapar ramma fyrir meistar- og doktorsnema í næringarfræði og hafa um 70 lokið námi á starfstímanum í samvinnu við matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands. Þessi hópur er víða við störf í atvinnulífinu, í matvælaiðnaði, við rannsóknir og kennslu. Síðan hefur Rannsóknastofan sinnt sjálfstæðum rannsóknum og ekki síst sinnt viðkvæmum hópum: ungbörnum, barnshafandi konum, öldruðum og ýmsum sjúklingahópum. Þá eru helstu næringarvandamál greind. Eitt megináhyggjuefni næringarfræðinga snúa að ofneyslu sykurs. Þá dynja á fólki auglýsingar um skyndilausnir og fæðubótaefni. Svo er ástæða til að óttast að tilteknir hópar geti verið vannærðir að einhverju leyti, ekki síst aldraðir. „Fjölmargar af okkar rannsóknum hafa sýnt að næringarástand er lélegt, 30-50% aldraðra eru vannærð. Nýlegar rannsóknir benda líka til að aldraðir eiga erfitt með að nærast – líka inni á spítalanum og eftir að þeir koma heim. Það eru margar ástæður – bæði lítill áhugi á að borða, hafa ekki matarlyst, ekki aðstæður til að sækja sér mat.“ Maður þarf að hafa áhuga á að borða. „Já, ég held að það sé mikilvægt, sérstaklega þegar maður eldist,“ sagði Ingibjörg Gunnarsdóttir á Morgunvaktinni.

 

Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Jónsson  -  Morgunvaktin
Ingibjörg Gunnarsdóttir, prófessor
Mynd með færslu
Óðinn Jónsson
dagskrárgerðarmaður
Morgunvaktin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi