Trúarleiðtogar hittust á Kúbu

13.02.2016 - 12:15
Sögulegur fundur var haldinn í Havana á Kúbu í gærkvöld þegar Frans páfi hitti Kýril, partíarka rússnesku réttrúnaðarkirkjunnar. Þetta er í fyrsta sinn sem leiðtogar kaþólsku kirkjunnar og þeirrar rússnesku hittast í tæp þúsund ár, eða allt frá því að Austurkirkjan klofnaði frá þeirri kaþólsku árið 1054.

Leiðtogarnir gáfu út sameiginlega yfirlýsingu að fundi loknum þar sem þeir hvöttu til einingar kristinna manna og skoruðu á ráðamenn að hjálpa kristnu fólki í Miðausturlöndum sem sætir margvíslegum ofsóknum.

Frans páfi hélt að fundi loknum til Mexíkó þar sem hann er nú í fimm daga langri opinberri heimsókn. Kýril heimsækir hins vegar Brasilíu og Paragvæ.

 

Mynd með færslu
Sveinn H. Guðmarsson
Fréttastofa RÚV