Til í að skoða takmarkanir á nafnbreytingum

11.08.2017 - 15:59
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Vinna er hafin í dómsmálaráðuneytinu við endurskoðun á öllum lagaákvæðum sem snerta uppreist æru. Þetta segir Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, í samtali við fréttastofu en hún kynnti þessa vinnu á ríkisstjórnarfundi í morgun. Hún segir það hugsunarvert hvort menn sem hafa hlotið dóm eigi að fá að breyta nafni sínu. Róbert Árni Hreiðarsson sem breytti nafni sínu í Robert Downey er einn þeirra sem breytt hafa nafni sínu eftir sakfellingu og fangelsisdóm.

Frumvarp um breytingar á lögum um uppreist æru liggur ekki fyrir en Sigríður vonast til að leggja það fyrir þingið í haust. Ríkisstjórnin standi einhuga að baki því að framkvæmd á uppreist æru verði endurskoðuð.

„Sá möguleiki er fyrir hendi að afnema hreinlega með öllu það lagaákvæði sem heimilar forseta að veita uppreist æru,“ segir hún. Þá þurfi hins vegar að líta til laga sem kveða á um óflekkað mannorð sem skilyrði fyrir embættisgengi eða kjörgengi. 

„Það eru fjölmörg lagaákvæði og lagabálkar sem kveða á um að menn þurfi að hafa óflekkað mannorð og sums staðar eru gerðar ríkari kröfur til þess að menn hafi ekki brotið af sér í ákveðnum efnum og það er fullt tilefni til að endurskoða alla þessa lagabálka og gera þá skýrari.“

Ekki hægt að reisa upp æru með stjórvaldsathöfn

„Ég, eins og augljóslega aðrir, hef haft ákveðnar efasemdir um að mönnum sé veitt uppreist æra með þeim hætti sem hefur verið.“

Viðhöfnin í kringum uppreist æru sé of mikil fyrir athöfn sem gerist nánast sjálfkrafa, segir Sigríður, og telur hugtakið uppreist æra of virðulegt fyrir athöfnina sem það á við. „Ég tel rétt að lagatextar endurspegli málvitund manna og hugmyndir manna um hvað sé rétt og rangt. Þannig að ég tek undir þau sjónarmið að það sé eitthvað óeðlilegt við þessa framkvæmd alla,“ segir hún. 

„Það er auðvitað ekki þannig að hægt sé að reisa upp æru eða endurheimta mannorð sitt með einhverri stjórnvaldsathöfn. Þá eigum við ekki að láta líta út fyrir að það sé þannig.“

Umhugsunarvert að menn geti breytt um nafn

Þá hafi komið til umræðu í ráðuneytinu að breyta lögum þannig að dæmdir menn geti ekki skipt um nafn. „Ég hef velt því fyrir mér því nafnabretingar virðast vera nokkuð tíðar á Íslandi,“ segir Sigríður.

„Það er umhugsunarvert hvort það eigi að standa mönnum sem hafa verið dæmdir til boða að breyta nafni sínu. Það kemur til greina að skoða það af minni hálfu í tengslum við aðrar breytingar á mannanafnalögum sem ég hyggst leggja fram á næsta þingi.“