Þúsund flekar í Víðsjá

Bókmenntir
 · 
Menningarefni
 · 
Víðsjá

Þúsund flekar í Víðsjá

Bókmenntir
 · 
Menningarefni
 · 
Víðsjá
Mynd með færslu
25.02.2016 - 17:08.Guðni Tómasson.Víðsjá
Árið 1980 sendu franski heimspekingurinn Gilles Deleuze og sálfræðingurinn Félix Guattari frá sér bókina Þúsund flekar. Kapítalismi og skitsófrenía. Marteinn Sindri Jónsson hefur verið að lesa bókina í nokkur ár, hann á ekki von á að ljúka lestrinum nokkurn tímann, en hér má heyra fjóra pistla sem hann flutti um bókina í Víðsjá á Rás 1, þar sem hann beitti hugsun þeirra Deleuze og Guattari á nokkur fyrirbæri. Hér fyrir ofan má hlýða á pistlana einn af öðrum með því að smella á örvarnar.

Deleuze

Þeir Deleuze og Guattari, kynntust í kjölfar stúdentauppreisnanna í París 1968.  Deleuze hafði þá þegar skrifað fjöldann allan af verkum, flest þeirra fjölluðu með einum eða öðrum hætti um heimspekisöguna – heimspekingar skrifa mjög gjarnan um aðra heimspekinga – en nálgun Deleuze var ef til vill svolítið sérstök.

„Heimspekisagan, skrifaði hann, hefur ætíð verið valdatæki innan heimspekinnar, hún hefur leikið hlutverk harðstjórans; hvernig í ósköpunum getur nokkur hugsað ef hann hefur ekki lesið Platón, Descartes, Kant og Heidegger og allar bækurnar sem einhver hefur skrifað um þær … Sú hugmynd sem kallast heimspeki hefur orðið til sögulega og kemur ítrekað í veg fyrir að fólk hugsi.“  

Deleuze nálgaðist heimspekisöguna með skapandi hætti, ekki sem sérfræðingur og taldi það hlutverk heimspekinnar að skapa hugtök, heimspekin var í hans huga skapandi grein.

Guattari

Félix Guattari var sálfræðingur, heimspekingur og aktívisti. Hann lærði sálgreiningu hjá Jacques Lacan og starfaði lengi á geðsjúkrahúsinu La Borde þar sem hefðbundin valdatengsl sjúklings og greinanda voru leyst af hólmi með hópmeðferðum. Hann var alla tíð ötull gagnrýnandi þess hvernig samfélagið mótar þegna sína og keppti að því að hugsa um og gagnrýna hefðbundna sjálfsmynd og samfélagsstöðu.

Vorið 1968 og brostnar vonir

Stúdentauppreisnunum í París 1968 lauk með því að helsta byltingaraflið á sviði franska stjórnmála, franski kommúnistaflokkurinn sem keppti – eins og aðrir kommúnistaflokkar – að alræði öreiganna, gekk í lið með frönskum stjórnvöldum til að kveða byltingarseggina í kútinn – kommúnistunum hugnaðist ekki að einhverjir aðrir en þeir sjálfir réðu hvernig byltingin ætti sér stað.

Vonbrigði Deleuze og Guattari, ekki bara með kommúnistana, heldur jafnframt með sálfræðingana og geðlæknana sem í Frakklandi á þessum tíma aðhylltust upp til hópa kenningar sálgreiningar Sigmunds Freud urðu til þess að þeir gáfu út verk árið 1972 undir titlinum Anti-Ödipus, kapítalismi og skitsófrenía. Þar var markmiðið að sameina marxíska gagnrýni á framleiðsluöflin og freudíska greiningu á hvatalífi mannsins í heimspeki sem félli ekki í gryfjur sálfræðinganna og kommúnistanna.

Þúsund flekar

Átta árum síðar kom síðan út stórvirkið Þúsund flekar, sem rétt eins og forverinn, Anti-Ödipus hefur undirtitillinn kapítalismi og skitsófrenía. Verkið er rúmar 600 blaðsíður, algjört skrímsli og ekki beinlínis til þess fallið að laða að sér lesendur. En yfirborðið kann að blekkja.

Rætur og mosi

Í upphafskafla bókarinnar sem fjallar um rótarplöntur – já þið heyrðuð rétt rótarplöntur, með öðrum orðum rísóm, en mosi er ákaflega gott dæmi um rótarplöntu sem ólíkt trjágróðri hefur enga skýrt skilgreinanlega miðju, heldur skýtur sér í þúsund þráðum þvers og kruss um landið – já í upphafskafla bókarinnar þá segja höfundarnir; við vorum tveir sem skrifuðum Anti-Ödipus saman, nú höfum við margfaldast – við erum hersing segja þeir, fjöldinn allur af höfundum og það er ekki ljóst hvar hver byrjar og öðrum lýkur.

Bókin er risavaxin mosabreiða, höfundarnir hafa ekki einungis dregið sig í hlé og vísað ábyrgð sinni á bókinni á bug, heldur hvetja þeir til lesturs á henni sem er frábrugðinn því sem við könnumst öll við – að byrja á byrjuninni og lesa til enda.

Venjulegar bækur segja þeir – hefðbundnar bækur skulum við kannski segja – bækur sem krefjast þess að vera lesnar frá upphafi til enda – eru, segja höfundarnir eins og tré, með trjábol og rætur og skýran vöxt, frá jörðu og upp til krónunnar sem gnæfir tignarlega yfir lággróðrinum með laufþaki sínu.

Tré og menning

Tréð er dæmigert fyrir menningu sem er upptekin af röð og reglu hlutanna, til dæmis þróun lífs á jörðinni sem í hefðbundinni framsetningu er oftar en ekki sett fram á tré þar sem ómerkilegustu dýrin sem má alveg stíga á og drepa eins og flugur eða amöbur, eru kannski neðst en dýr sem má helst ekki drepa nema maður segist gera það í vísindalegum tilgangi eins og hvalir vaxa ofar á trénu – en þó neðan við manninn sem ber höfuð og herðar yfir aðrar skepnur jarðarinnar, nota bene hvíta karlmanninn, sem ber höfuð og herðar ekki bara yfir dýrin heldur yfir konur og börn og aðra kynþætti og fatlað fólk og geðsjúka og samkynhneigða og svo mætti lengi telja.

Það er tré af þessu tagi sem verkinu er ætlað að fella, verkinu sem vex eins og rótarflækja, eins og mosi og hefst bara þar sem þú vilt að það hefjist, t.d. á blaðsíðu 339 og lýkur hvar og hvenær sem er. Þetta endurspeglast í kaflaheitunum, sem eru tímasettir út um hvippinn og hvappinn í jarðsögunni, einn árið núll, annar árið 1730, einn 10.000 fyrir krist. Þar er mynd af humar og kaflinn fjallar um hvað guð sé mikill humar.

Ef til vill sitja sérfræðingar um verkið út í bæ og hugsa hvaða djöfulsins vitleysa – ég vona að þið sem eruð ekki sérfræðingar séuð að hlusta og hafið gaman af – því þetta er bók sem vill ekki eiga neina sérfræðinga – ef hægt er að segja að bók vilji nokkurn skapaðan hlut.

Hinn ákafi lesandi

Það sem er athyglisverðast við bókina er ekkert endilega textinn sjálfur – þó ég hafi voða gaman af því að týnast í honum -  það er miklu frekar hugmyndin um að bók eigi að gera lesandann ákafan, hann eigi – í rauninni – að breyta lesandanum í dýr í orðsins fyllstu merkingu – þá á ég ekki við lítinn krúttlegan lestrarhest eða gáfulegan bókaorm – heldur að lesandinn rífi bókina, ekki bara í sig heldur sundur og saman, að hann verði eitt með textanum og um leið með heiminum öllum því þessi bók er leiðarlykill fyrir þá sem hafa lesið Harry Potter, hún er huliðskykkja og hvetur til hamskipta, hún hefur einstakt lag á því að búa til göt í efni raunveruleikans og opna innvíddir þess, ormagöng kannski, holur til að detta ofan í, dyr til að fara í gegnum, brunna til skoða og spegla til að horfa í.