Þriggja bíla árekstur í Öxnadal

11.08.2017 - 17:27
Mynd með færslu
 Mynd: Rögnvaldur Már Helgason
Nú síðdegis þurfti að loka þjóðveginum í Öxnadal vegna þriggja bíla áreksturs. Búið er að opna veginn aftur, en mikil umferð er um svæðið og því eru talsverðar tafir vegna þessa.

Áreksturinn varð með þeim hætti að keyrt var aftan á bíl sem fór við það aftan á þann þriðja. Tveir bílanna eru ónýtir, en enginn meiddist í árekstrinum, að sögn varðstjóra hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra. Mikil umferð er í Öxnadal, enda ein stærsta helgi ársins á Norðurlandi framundan. Fiskidagurinn mikli á Dalvík og Handverkshátíð í Eyjafirði fara fram um helgina og búist er við þúsundum gesta. Lögregla stýrir umferð um slysstaðinn og því má áfram búast við nokkrum töfum. 

Fyrr í dag varð bílslys í Kræklingahlíð, í nágrenni Akureyrar, þegar ökumaður missti stjórn á bíl sínum með þeim afleiðingum að hann fór útaf og lenti í skurði. Fjórir voru fluttir á slysadeild, en talið er að þeir séu ekki alvarlega slasaðir. 

 

Jón Þór Kristjánsson
Fréttastofa RÚV