Þriðji maðurinn handtekinn

18.08.2017 - 08:02
Flowers and candles are placed on the pavement on a street in Las Ramblas, Barcelona, Spain, Friday, Aug. 18, 2017. Spanish police on Friday shot and killed five people carrying bomb belts who were connected to the Barcelona van attack that killed at
 Mynd: ASSOCIATED PRESS  -  AP
Fimm grunaðir hryðjuverkamenn voru vegnir eftir að bifreið var ekið á vegfarendur í bænum Cambrils á norðaustur Spáni í gærkvöld. Lögregla leitar enn mannsins sem varð þrettán að bana og særði um 100 í Barselóna í gær. Þrír eru í haldi lögreglu grunaðir um að tengjast árásinni.  

Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, hefur lýst yfir þriggja daga þjóðarsorg vegna atburðanna og í dag verður mínútu þögn til heiðra minningu þeirra sem létu lífið. Rajoy segir hryðjuverkasamtökin Íslamska ríkið hafa staðið á bak við árásina. Að sögn spænskra yfirvalda eru látnir og særðir af 24 þjóðernum.

Tveir menn voru handteknir í gær vegna árásarinnar í Barselóna, en lögregla leitar enn mannsins sem ók þar á vegfarendur. Hann hljóp af vettvangi, en lögregla fann í gær bifreið sem talið er að hann hafi notað á flóttanum. Þriðji maðurinn var handtekinn í bænum Ripoll  í nótt í tengslum við rannsókn málsins.

Nokkrum klukkustundum eftir árásina í Barselóna eða um klukkan eitt í nótt að staðartíma, var bifreið ekið á fólk í bænum Cambrils, skammt sunnar. Sjö særðust í árásinni, einn þeirra alvarlega. Í bílnum voru fimm menn og voru allir skotnir til bana.

Fréttastofan Reuters sagði í nótt að lögregla teldi að með því hefði annarri árás verið afstýrt því allir hefðu mennirnir verið með sprengjubelti. Carles Puigdemont, leiðtogi Katalóníumanna, sagði í útvarpsviðtali í morgun að sérfræðingar hefðu staðfest að þau hefðu verið plat. 

Fréttin hefur verið uppfærð.