Þrenging Glerárgötu tekin úr aðalskipulagi

17.08.2017 - 14:30
Mynd með færslu
 Mynd: Jón Þór Kristjánsson  -  RÚV
Tillaga um þrengingu Glerárgötu á Akureyri er ekki lengur í aðalskipulagi, en ný drög voru afgreidd úr skipulagsráði í gær. Formaður ráðsins segir að útfærsla á umferðarkerfinu eigi ekki heima í aðalskipulagi. Í nýju drögunum er einnig dregið verulega úr byggingarsvæði í Kotárborgum. 

Átti að fækka akreinum á 550 metra kafla

Drög að nýju aðalskipulagi Akureyrarbæjar til ársins 2030 voru kynnt á íbúafundi í lok mars. Þar var lögð áhersla á að þétta byggð, stytta vegalengdir og auka framboð íbúðalóða á nýjum svæðum. Samkvæmt drögunum átti einnig að fækka akreinum Glerárgötu úr fjórum í tvær á 550 metra kafla til að auka umferðaröryggi, þó með þeim fyrirvara að hægt yrði að fjölga akreinum aftur síðar ef þörf krefði. 

Þrenging Glerárgötu hefur lengi verið þrætuepli stjórnmálamanna og bæjarbúa á Akureyri. Gatan er ein aðalstofnbraut bæjarins og tilheyrir Þjóðvegi 1. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa að undanförnu gagnrýnt áformin harðlega og talað um að það sé „hrein sóun á skattfé Akureyringa að hliðra Glerárgötunni og þrengja hana.“

Almenn markmið um öryggi vegfarenda

Í kjölfar kynningarinnar í vor var bæjarbúum og öðrum hagsmunaaðilum boðið að gera athugasemdir við drögin. Þá fór aðalskipulagið til skipulagsráðs sem gerði breytingar og afgreiddi nýja útgáfu á fundi sínum í gær.

Tryggvi Már Ingvarsson, formaður skipulagsráðs, segir að búið sé að taka allar greinar um þrengingu Glerárgötu úr aðalskipulaginu. Í stað þess hafi verið sett inn almenn markmið um að tryggja öryggi vegfarenda. „Með því að breyta þessu í aðalskipulagi opnum við á þann möguleika að þrenging verði ekki leiðin,“ segir Tryggvi. 

Hann segir mikilvægt að aðalskipulag sé gert í samvinnu og engum sé greiði gerður með því að samþykkja mjög umdeilt skipulag sem er síðan breytt strax eftir kosningar á næsta ári. Þá telur hann að náin útfærsla á umferðarkerfinu eigi ekki heima í aðalskipulagi, heldur í deiliskipulagi fyrir afmörkuð svæði. Samkvæmt því er stefnt að þrengingu götunnar en deiliskipulag tekur jafnan mið af aðalskipulagi. 

Dregið úr byggingarsvæði í Kotárborgum

Samkvæmt fyrri drögum var stefnt að því að byggja 260 íbúðir í Kotárborgum við Glerá. Áformin vöktu reiði hjá mörgum íbúum nálægra svæða en Kotárborgir eru mikið notaðar til útivistar og hefur verið bent á að þar sé mikið fuglalíf og gamlar klappir sem beri að varðveita.

Tryggvi segir að brugðist hafi verið við þessum óánægjuröddum í nýjum tillögum. „Það er enn gert ráð fyrir ákveðnum byggingum í Kotárborgum en við sneiðum hjá klöppum og viðkvæmum svæðum. Við erum búin að draga töluvert úr byggingarsvæði,“ segir Tryggvi. Alls bárust 42 athugasemdir vegna fyrirhugaðra framkvæmda í Kotárborgum og segir Tryggvi að margar þeirra hafi ekki verið neikvæðar. Margir virðist því sjá möguleika í því að byggja þar upp en þó áætlar hann að byggingarsvæðið hafi verið minnkað um helming. 

Aðalskipulagið fer nú til bæjarstjórnar sem tekur það fyrir á fundi 5. september. Í framhaldinu verður skipulagið auglýst með formlegum hætti og gefst þá öllum kostur á að skila inn athugasemdum. Í kjölfarið fjallar bæjarstjórnin um skipulagið að nýju og það samþykkt, með eða án breytinga.