Þingmaður: Vígbúnaðarkapphlaup í Keflavík

11.02.2016 - 12:09
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Aukin viðvera Bandaríkjahers á Íslandi er hluti af vígbúnaðarkapphlaupi í heiminum, að mati Steinunnar Þóru Árnadóttur, þingmanns Vinstri grænna sem jafnframt á sæti í utanríkismálanefnd Alþingis. Óljóst sé hversu mikið viðvera hersins aukist hér á landi. Steinunn Þóra hefur farið fram á umræðu um málið á Alþingi.

Utanríkismálanefnd Alþingis boðaði til fundar í morgun með skömmum fyrirvara, þar sem fréttir af auknum umsvifum Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli voru til umræðu. Bandaríkjaher hefur óskað eftir því að fá jafnvirði tæpra þriggja milljarða króna á fjárlögum Bandaríkjanna til þess að laga flugskýli á vellinum. Talskona hersins sagði í fréttum í gær að þrátt fyrir þetta væri herinn ekki að auka starfsemi sína á Íslandi. Það var Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna, sem óskaði eftir því að nefndin yrði kölluð fyrir. Gestir á fundinum voru Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra og tveir starfsmenn utanríkisráðuneytisins. Steinunn Þóra segir að fátt nýtt hafi komið fram á fundinum varðandi umsvif  Bandaríkjahers hér á landi.

„Það er hins vegar ennþá frekar óljóst í mínum huga hversu mikil þessi viðvera verður og kannski í rauninni eitthvað sem er ekki búið að taka ákvörðun um,“ segir Steinunn Þóra.

Nú segir talsmaður hersins að aðeins standi til að laga þetta flugskýli, er ekki verið að gera úlfalda úr mýflugu?

„Ég tel svo ekki vera. Það á að laga þetta flugskýli til þess að það geti hýst stærri og öflugri vélar sem á aðallega að nota í kafbátaleit. Í mínum huga er það ekkert annað en að þarna er verið að uppfæra búnað til þess að hann geti sinnt einhverju nýju og betra hlutverki fyrir bandaríska herinn. Þannig að í mínum huga er þetta einn lítill angi af miklu stærra vígbúnaðarkapphlaupi sem á sér stað og tegnist auknum óróleika víðsvegar í heiminum. Þannig að ég held að við séum bara eitt lítið spil í miklu stærra tafli og að þannig skipti þetta máli inn í hið stóra samhengi.“

Steinunn Þóra segir nauðsynlegt að ræða þessi mál á opnum og lýðræðislegum vettvangi þar sem almenningur geti tekið þátt í henni.

„Ég hef nú þegar óskað eftir sérstakri umræðu um þetta mál í þinginu. Og ég vona að það komist á dagskrá sem allra fyrst.“