„Þetta er týpísk gerviverktaka“

17.05.2017 - 08:34
Magnús Norðdahl, deildarstjóri lögfræðideildar ASÍ, vísar því á bug að flugfreyjur hjá Primera Air séu verktakar. Þetta sé dæmigerð gerviverktaka.  

Flugfreyjufélag Íslands samþykkti fyrir rúmri viku verkfallsboðun hjá Primera Air með öllum greiddum atkvæðum. Verkfallið hefst fimmtánda september náist ekki samningar. Forstjóri flugfélagsins furðaði sig á verkfallsboðuninni í fréttum RÚV, sagði tíðindin koma sér á óvart því flugfreyjur félagsins væru ekki í flugfreyjufélaginu heldur verktakar.

Magnús Norðdahl, deildarstjóri lögfræðideildar ASÍ, segir að starfsemin falli ekki undir verktöku. Eftir því sem næst verði komist séu vélarnar mannaðar með áhöfnum frá starfsmannaleigum. „Það er sagt að þetta séu verktakar þarna um borð. Við höfnum því algjörlega,“ sagði Magnús í viðtali á Morgunvaktinni í morgun.
„Fyrir það fyrsta þá er það ekki þannig að verktaka fari fram með þeim hætti. Þetta er týpísk gerviverktaka. Vegna þess að eins og við vitum, þegar þú býður í eitthvað verk, þá tekurðu að þér að vinna það á þína ábyrgð, með þínum verkfærum, þú getur sent annan í þinn stað og svo framvegis og ert býsna sjálfstæður. Ekkert af þessum skilyrðum er uppfyllt við verktöku hjá flugliðum um borð í flugvél. Þeir eru algjörlega undir valdi atvinnurekandans og eru engir verktakar.“

Magnús segir stéttarfélagsaðild vera viðkvæmar persónulegar upplýsingar og vill því hvorki staðfesta né hafna að starfsmenn Primera Air séu í Flugfreyjufélaginu. Stéttarfélög hafi það verkefni að verja réttindi núverandi starfsmanna og framtíðarstarfsmanna, samkvæmt íslenskum lögum, og þannig megi beita verkfallsréttinum.

Um starfsemi gildi vinnuréttarreglur þess ríkis hvar eða hvaðan starfið er unnið. Í tilviki Primera Air sé það Ísland og því heyri störfin undir íslenska lögsögu. 

„Það sem á við um þetta flugfélag hér er að hér hefjast flugin, hér er hvíldin tekin út, hér eru fyrirmælin gefin. Nákvæmlega þessi upptalning sem aðallögfræðingur Evrópudómstólsins metur. Það á sér allt stað hér á Íslandi. Það gerir þetta mál sérstakt. Það á ekki við um önnur flugfélög sem fljúga hingað.“