The Hateful Eight – Tómlegt blóðbað

13.01.2016 - 13:45
The Hateful Eight er Tarantino-mynd sem tikkar í öll boxin, segir Gunnar Theodór Eggertsson kvikmyndagagnrýnandi Víðsjár. Þetta er hæggeng og ofbeldisfull mynd, þar sem flottir karlar og ein kona röfla í löngu máli. „Sem áhorfendur vitum við að við erum á Tarantino-mynd og að vissu leyti vitum við þá líka á hverju við megum eiga von.“

Myndin hafi þó komið illa við hann, sem aðdáanda og verjanda þessa umdeilda kvikmyndagerðarmanns. „ Í fyrsta skipti tek ég undir þá gömlu gagnrýni um Tarantino að ofbeldinu sé ofaukið, að það sé til skrauts, að það sé einum of.“The Hateful Eight
, eða Andstyggðaráttan, er nýjasta og jafnframt áttunda kvikmynd leikstjórans Quentin Tarantinos. Um er að ræða hægan og ofbeldisfullan ráðgátuvestra, þar sem átta manns festast saman í gistihúsi í miðjum stormi, og alls kyns leyndarmál dorma undir yfirborðinu. Spennan magnast jafnt og þétt og, vegna þess að þetta er Tarantino-mynd, stefnir eflaust allt í blóðug átök áður en yfir lýkur. Myndin gerist eftir borgarastríðið og Kurt Russell leikur hausaveiðarann John Ruth sem er með útlagann Daisy Domergue í eftirdragi, konu sem á að hengja í næsta bæ og er með tíu þúsund dollara verðlaun til höfuðs sér. Ruth hittir annan hausaveiðara í upphafi myndar, Marquis Warren, leikinn af Samuel L. Jackson, og tekur hann upp í hestvagninn til sín, og því næst vafasaman Suðurríkjamann sem segist vera nýi fógetinn í bænum. Saman leitar hópurinn skjóls í gistihúsi vegna ofsaveðurs og hittir þar nokkra undarlega ferðalanga í viðbót, sem saman mynda töluna átta. Meirihluti myndarinnar á sér stað inni í þessu húsi og í raun minnir The Hateful Eight um margt á leikrit.

The Hateful Eight er annar vestri Tarantinos – sá þriðji ef við teljum Kill Bill 2 með – og honum líður greinilega vel í vestraforminu. Mikið hefur verið gert úr því að myndin er tekin upp í PanaVision og á 70mm filmu, sem þýðir að hún er gríðarlega breið og í stíl epískra stórmynda Hollywood frá því um miðja síðustu öld (Tarantino þreytist ekki að nefna að hann notaði sömu linsur og Ben Hur var skotin með). Tarantino er auðvitað mikill filmuperri og nýtir sér þetta sérstaka form vel, þótt það sé aðallega innandyra og í þröngu rými. Þannig treður hann nærri öllum persónum stundum í rammann og einstaka sinnum finnum við fyrir því að sú útgáfa sem við fáum í bíó hér er eilítið snyrt á hliðunum, því nútímabíótjöld eru ekki gerð fyrir PanaVision. Sérstakar viðhafnarsýningar eru í gangi í Bandaríkjunum og víðar þar sem Tarantino vill gera bíóferðir aftur að sérstökum viðburðum og mér skilst að það sé mjög gaman að sjá hana undir þeim kringumstæðum.

Ekta Tarantino

Gamli vestrafílingurinn kemur líka fram í músík Ennio Morricone, en hann samdi nýja kvikmyndatónlist – þá fyrstu við vestra í marga áratugi – sem er líka alveg stórkostleg. Það kom mér þó á óvart hversu mikið var endurnýtt líka af gömlu efni frá honum – t.d. úr Exorcist II og The Thing – en engu að síður var reglulega gaman að heyra Morricone í gamla fílingnum, sérstaklega undir upphafstitlunum.

The Hateful Eight er greinilega Tarantino-mynd sem tikkar í öll boxin – samtölin, ofbeldið, hægagangurinn, kaflaskiptingin, sjálfsmeðvitundin, kvikmyndavísanirnar. Sem áhorfendur vitum við að við erum á Tarantino-mynd og að vissu leyti vitum við þá líka á hverju við megum eiga von. Honum hættir nú við að verða formúlukenndur og í þessari mynd finnst mér ég finna fyrir endurtekningu á frekar slæman hátt – ekki að verið sé að vinna frumlega með endurtekin stef, sem hann hefur svo sem alltaf gert í myndum sínum, heldur meiri mekanisma og yfirborðsleika í frásögninni.

Myndin einkennist þó aðallega af hægagangi, en Tarantino hefur aldrei tekið svona langan tíma í uppbyggingu áður en nokkuð grípandi á sér stað. Hann hefur vissulega verið hægur áður – í Django líður held ég næstum klukkustund eftir að Jamie Foxx mætir loks á búgarðinn til Leonardo DiCaprios, þar sem ekkert gerist annað en endalaus samtöl og blaður, en samtölin eru þó spennuþrungin allan tímann, og við vitum að okkar bíður uppgjör þegar þeim loks lýkur. En í fyrri myndum hefur hann þó alltaf byrjað með meiri krafti – sjá til dæmis upphafssenuna í Inglorious Basterds, sem er ein af bestu senum sem Tarantino hefur nokkurn tímann smíðað: löturhæg, en svakalega áhrifarík, og dregur okkur strax inn í myndina, áður en hann síðan leyfir sér að hægja verulega á framrásinni.

En hér er ekkert bang í byrjun, heldur hæglát uppbygging þar sem við hittum hverja persónuna á eftir annarri, og peðunum er jafnt og þétt stillt upp á leiksviðinu. Reynt er á þolinmæðina strax með fyrsta skoti, gullfallegum og löturhægum upphafstitlum þar sem hestvagninn keyrir í gegnum snævi þakið landslag. Áhorfandinn er þannig beðinn um að treysta leikstjóranum – og það er magnað, því ég veit ekki um annan meginstraumsleikstjóra sem kemst upp með svona hægagang í bíó nú á dögum. Tarantino kemst líka upp með handrit og samtöl sem enginn Hollywood-framleiðandi myndi hleypa í gegn, ef einhver annar reyndi að skila inn álíka handriti. Tarantino treystir því að við treystum honum og þótt ég skilji að sumum hafi dauðleiðst í fyrri hlutanum, þá var ég alveg með á nótunum og reiðubúinn að veita honum þetta traust. Eitthvert hlaut hann að stefna í seinni hlutanum, og við hlutum að eiga í vændum væna þóknun eftir alla þolinmæðina.

Dúndurleikarar

Hann hefur líka úrvalsleikaralið til að halda samtölunum uppi og ekki er leiðinlegt að fylgjast með öllum þessum flottu körlum röfla saman. Samuel L. Jackson er alveg sérstaklega góður, en hinir óþokkarnir ekki síðri, einkum er gaman að sjá Bruce Dern í bitastæðu hlutverki, og þótt Walter Goggins sé pirrandi og þreytandi til að byrja með, þá þróast sú persóna á áhugaverðan hátt í gegnum myndina. Að sama skapi virkar Tim Roth dálítið eins og staðgengill fyrir Christoph Waltz, en persóna Roth tekur líka áhugaverðum breytingum eftir því sem á líður. Það er samt Kurt Russell sem ber af, en ég er svo forfallinn aðdáandi hans að það er eflaust ekkert að marka mig í þeim málum. Eitt verður þó að minnast á, og það er að þetta eru mestmegnis karlar, enda mikil karlamynd, og í þeim málum virðist Tarantino eiga erfitt með að samræma vestrana sína við þær myndir sem á undan komu. Hann er þekktur fyrir góð og bitastæð kvenhlutverk, en í Django var strax ákveðinn skortur á konum, og hér verður það þeim mun meira áberandi. Þótt Jennifer Jason Leigh sé reglulega góð í hlutverki útlagans Daisy, þá er hennar hlutverk óneitanlega mjög vafasamt á ýmsa vegu.

Gallar

Sem færir okkur yfir í gallana. Ég held ég skilji hvað Tarantino er að reyna að gera með persónu Daisy – að gera kvenpersónuna að einum hrottanna og þar af leiðandi að réttlæta að hún sé tuskuð til og lamin út alla myndina. Gott og vel, það er alveg hægt að segja þannig sögu, auðvitað mega kvenpersónur vera álíka drulluhalar og karlpersónur og auðvitað má koma illa fram við þær á sama hátt og okkur þætti eðlilegt að sjá farið með karlhrotta. En það er eitthvað undarlegt við tóninn í ofbeldinu gegn Daisy, frá upphafi til enda. Þegar hún er lamin – og það er ósjaldan – eru höggin spiluð nánast eins og grín, eins og eitthvað kjánalegt slapstick, sem er ansi truflandi. Og bláendir myndarinnar er svo ruglaður að ég get ómögulega skilið hvað Tarantino er að reyna að segja. Án þess að vilja kjafta frá, þá stuðaði hann mig held ég á allt annan hátt en Tarantino vildi stuða áhorfendur sína.

Þetta er líka það sem er að myndinni: hún stuðaði mig, sem aðdáanda, á undarlegan hátt, og því ekki skrítið að hún sé að stuða ansi marga aðra. Ég er nefnilega heilmikill verjandi Tarantinos. Hann sætir iðulega gagnrýni fyrir að vera of mikill stílisti, of upptekinn af því að vísa í aðrar bíómyndir og vinna bara með formið og festast í einhvers konar collage-kvikmyndagerð. En það er samt alltaf eitthvað meira í gangi, sem snýst oftar en ekki um tilfinningasambönd fyrir miðju sem réttlæta allt hitt. Eitthvað sem gefur myndunum kjarna, því annars er svo svakalega stutt í að þær verði mestmegnis skraut. Jackie Brown er stundum talin síðasta myndin sem Tarantino gerði sem fjallaði um fólk, og Kill Bill talin vera ákveðin straumhvörf, þar sem myndir hans fóru yfir í að fjalla bara um aðrar kvikmyndir. En jafnvel í Kill Bill er sterk persóna fyrir miðju, og samband brúðarinnar við bæði Bill og dóttur sína gefur þeirri mynd hjartað sem kjarnar alla stælana.

Inglorious Basterds er stútfull af ofbeldi, stílfærðum vísunum í aðrar kvikmyndir og allt það, en þar eru líka mjög sterkar og persónulegar sögur í gangi, og líklega hvergi sem þessar tvær hliðar ná jafngóðu jafnvægi – að fjalla um kvikmyndir og að fjalla um fólk, enda er Inglorious Basterds ein besta myndin hans. Death Proof er kannski sú mynd sem snýst hvað mest um kvikmyndaformið sjálft – mynd sem segir í raun sömu söguna tvisvar, einu sinni í gegnum linsu seventies exploitation mynda, og svo aftur í gegnum linsu okkar samtíma, þar sem kvenpersónurnar umbreytast, í takt við myndatöku og uppbyggingu, og snúið er upp á allar væntingar.

Django er að sama skapi gríðarlegur óður til vestraformsins, mjög hæg á köflum, og full af ofbeldi og ýkjum, en efni þrælahaldsins gefur henni aukna dýpt, sem og persónuleg saga aðskildu elskendanna, og vinasaga Djangos og Schultz. En það er í raun fyrsta myndin hans, Reservoir Dogs, sem kemur upp í hugann í kringum The Hateful Eight, því það er svo margt líkt með þeim: hópur manna, lokaður inni, sem þekkist lítið, einn er líklega svikari, spennan magnast á litlu sviði, sem minnir um margt á leikrit, og leiðir til ofbeldis. En það kann að gleymast að Reservoir Dogs var líka mjög tilfinningarík í kringum samband persóna Tim Roths og Harvey Keitels, sem gerir allt lokauppgjörið þar svo eftirminnilegt.

Ofbeldið og tilgangur þess

En hér er ekkert slíkt til staðar og sem áhorfandi fann ég virkilega fyrir þessum tómleika, sérstaklega þegar tók að síga á síðari hlutann og ofbeldisbylgjan var komin á flug. Ég snerist að miklu leyti gegn myndinni í síðari hlutanum, þegar við fengum endurlitssenu sem virtist ekki þjóna neinum tilgangi öðrum en að sýna okkur ofbeldi sem þurfti alls ekki að sýna. Venjulega þjóna endurlitssenur mikilvægum tilgangi í myndum Tarantinos, sem púsl í brotakenndri frásögn sem er deilt út á frumlegan eða merkingarbæran hátt, en hér virtist það bara snúast um að henda fram meira ofbeldi og að vissu leyti fannst mér þetta atriði koma upp um tómleikann í myndinni.

Ég fékk á tilfinninguna að Tarantino hefði stillt upp þessum persónum í sama rýminu til þess eins að láta þær níðast á og myrða hverja aðra. Hver er annars meiningin með þessu? Ég skil að Tarantino sé líklega að reyna að segja eitthvað pólitískt um sögu Bandaríkjanna, kannski um merkingarleysi ofbeldis – sem kemur nú úr hörðustu átt – eða hvernig hrærigrauturinn í samfélaginu eigi rætur að rekja til rótleysis og stríðsbrölts á mótunarárum Bandaríkjanna. Hann virðist a.m.k. vilja segja eitthvað djúpt og róttækt, held ég, með þessari uppstillingu á persónum sem vilja í raun bara drepa hverja aðra. En það virkar því miður ekki nógu vel.

Ég vildi að The Hateful Eight væri áhugaverðari og meira spennandi, en aldrei þessu vant fann ég ekki fyrir löngun til að horfa aftur á Tarantino-mynd – ég sem er vanur að horfa á þær fram og aftur – og þar til einhver nær að sannfæra mig um gildi myndarinnar býst ég ekki við að heimsækja gistiheimili Minníar neitt í bráð.

Mér þykir leitt að segja það, en í fyrsta skipti tek ég undir þá gömlu gagnrýni um Tarantino að ofbeldinu sé ofaukið, að það sé til skrauts, að það sé einum of. Ekki vegna þess hversu blóðugt og hrottalegt og ýkt það er – það er allt í besta lagi mín vegna – heldur vegna þess að það sárvantar hjartað til að pumpa öllu blóðinu.

 

Mynd með færslu
Guðni Tómasson
dagskrárgerðarmaður
Víðsjá
Þessi þáttur er í hlaðvarpi