„Það er pressa, fólk vill fá ADHD-lyf“

19.01.2016 - 17:58
Íslendingar eiga Norðurlandamet í inntöku svefnlyfja, verkjalyfja, þunglyndislyfja og kvíðastillandi lyfja en heimsmet í notkun örvandi lyfsins metýlfenídats sem notað er gegn athyglisbresti og ofvirkni. Á árunum 2004 til 2014 jókst notkun þess um 233% hér á landi. Framkvæmdastjóri geðsviðs Landspítala segir lyfin of mikið notuð. Skjólstæðingar biðji gagngert um þau og sumir leiti allra leiða til að fá þau.

Þrefalt meiri notkun en í nágrannalöndum

Í nýrri lyfjastefnu heilbrigðisráðherra segir að ráðast þurfi í sérstakar aðgerðir til þess að sporna gegn ofnotkun þessara lyfja en ávana- og fíkniefnanefnd Sameinuðu þjóðanna hefur ítrekað gert athugasemdir við mikla notkun þeirra hérlendis. Ekki hafa fengist fullnægjandi skýringar á því hvers vegna notkunin er hér þrefalt meiri en í Danmörku, Svíþjóð og Noregi.

Spegillinn hefur heyrt ýmsar kenningar og tilgátur:

  • Að rangt sé að tala um ofnotkun, hér sé staðan afburða góð og við stöndum öðrum þjóðum framar í því að greina ADHD, sérstaklega meðal fullorðinna.
  • Að rekja megi ástæðuna til skorts á sálfélagslegum úrræðum.
  • Að ósamræmi sé fyrir að fara í greiningum.
  • Að aðgengi fólks að sérfræðilæknum sé betra hér en víða annars staðar.
  • Að ákveðnir læknar hafi ofurtrú á lyfjunum og ávísi þeim í of miklum mæli.
  • Að markaðssetning lyfjafyrirtækja hafi haft áhrif.                                                     

Einn geðlæknir heldur því fram að ADHD sé algengara meðal Íslendinga en annarra, þeir hvatvísu hafi yfirgefið Noreg á sínum tíma. 

„Ég kann ekki skýringar á þessu,“ segir Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra. Í svari velferðarráðuneytisins við fyrirspurn Spegilsins kemur fram að hugsanlega liggi hluti skýringarinnar í ofgreiningum á ADHD, önnur hugsanleg skýring sé sú að áhersla hafi í of miklum mæli beinst að lyfjagjöf í stað annarra úrræða.

Fjöldi fullorðinna notenda þrefaldast

Á árunum 2007 til 2014 þrefaldaðist fjöldi fullorðinna neytenda, fór úr 1200 í 3600. Þeir eru í dag fleiri en börnin. Fullorðnir þurfa hærri skammta en börn og það skýrir að einhverju leyti hvers vegna heildarnotkun þjóðarinnar er jafn mikil og raun ber vitni. Dagskammtar barna voru árið 2014 rúmlega milljón, tvöfalt fleiri en þeir voru árið 2005. Dagskammtar fullorðinna voru ein og hálf milljón, sexfalt fleiri en árið 2005.

Óuppfyllt þörf

Samkvæmt velferðarráðuneytinu er skýringin á aukningu notkunar hjá fullorðnum einföld að hluta. Áratuga reynsla sé komin á meðferð barna með þessum lyfjum en ekki hafi verið sýnt fram á að lyfin gögnuðust fullorðnum fyrr en á þessari öld. Það hafi því verið til staðar óuppfyllt þörf fyrir þessa meðferð meðal fullorðinna.

Fólk vill fá þessi lyf

„Ég held að við notum þessi lyf of mikið, ég viðurkenni það fúslega. Það er mikil vakning í sambandi við ADHD og ef fólk er með það eru örvandi lyf oft mjög góð meðferð en ég held að vandamálið sé að það eru einstaklingar að fá þessi lyf sem er ekki víst að séu með greinda ofvirkni með athyglisbresti. Það sem er merkilegt er að, það sem við höfum upplifað hérna, geðlæknar á Landspítalanum og á stofum úti í bæ er að fólk kemur og primært biður um lyf og þetta er alveg ný reynsla fyrir okkur. Vissulega eru einhverjir sem hafa heyrt að þunglyndislyf geti hjálpað og eru með þau í huga þegar þeir koma en þetta er fólk sem er búið að ákveða áður en það kemur að það vilji fá þessi lyf, kemur hér og er ósátt þegar það fær þau ekki. Án þess að ég vilji varpa ábyrgðinni af okkur geðlæknum sem hefjum þessa meðferð þá er ákveðin pressa hjá fólki og fólk er búið að lesa sér til og finnst að það eigi skilið að fá að reyna þetta,“

segir Halldóra Jónsdóttir, framkvæmdastjóri geðsviðs Landspítalans. Hún segir að reglur um hvaða læknar megi hefja meðferð hafi verið hertar, þó heimilislæknar megi endurnýja hana. Þá sé reynt að vísa fólki til ADHD-teymis Landspítalans þar sem enginn fær lyf nema að undangengnu flóknu greiningarferli.

„Það getur vel verið að það sé misbrestur á því annars staðar. Að fólk komi með greiningu annars staðar frá eða á einhvern hátt takist að fá læknana til að skrifa út lyf jafnvel þó ekki sé víst að það sé ástæða til.“

Helmingur þeirra sem vísað er í greiningu hjá teyminu reynist uppfylla skilyrði röskunarinnar.

Unnið að úttekt á starfsemi geðlækna

Landlæknisembættið vinnur nú að úttekt á starfsemi sjálfstætt starfandi geðlækna. Meðal annars verður kannað hvernig læknarnir sinna greiningu á ADHD og hvort þeir nýti til þess klínískar leiðbeiningar embættisins. Niðurstaðna er að vænta í næsta mánuði.

Halldóra telur eitthvað um að læknar láti undan þrýstingi eða séu of fljótir til að skrifa upp á lyfin. „Það er þrýstingur og ég hef í minni klínísku vinnu hitt fjölmargt fólk sem vill fá þessi lyf og leitar bara margra leiða til þess.“ Þetta séu bæði fíklar og fólk sem er sannfært um að lyfin geti gagnast því.

Toppnum náð

Það eru þó jákvæð teikn á lofti, Halldóra segir að toppnum sé náð. „Samkvæmt síðustu tölum sem ég hef séð eru útskriftir á metýlfenídati hættar að aukast.“

Þá segir hún að samanburð á notkun Íslendinga og Bandaríkjamanna á metýlfenídatlyfjum ekki endilega marktækan þar sem annað lyf, Adderall, sé notað samhliða metýlfenídatlyfjum vestra.

Nokkrum læknum laus höndin

Fullyrt hefur verið við Spegilinn að vandinn liggi að hluta til í því að fámennum hópi geðlækna sé og hafi lengi verið full laus höndin þegar kemur að því að ávísa þessum lyfjum. Ekki fengust upplýsingar um það frá Landlækni hversu margir hefðu verið sviptir leyfi til þess að ávísa lyfjum undanfarin ár. Í svari velferðarráðuneytisins við fyrirspurn Spegilsins kemur fram að eftirlit með ávísunum hafi verið hert og þremur stöðugildum bætt við eftirlitsdeild Embættis landlæknis. 

Ekki óhóflegum tengslum við lyfjafyrirtæki um að kenna

Í Spegli gærdagsins var fjallað um þróun tengsla lækna og lyfjafyrirtækja. Í nýrri lyfjastefnu heilbrigðisráðherra er lögð áhersla á að þessi tengsl séu fagleg og gagnsæ og lagt til að heilbrigðisstarfsfólk og nemar fái aukna fræðslu um mikilvægi þess að rýna lyfjakynningar og rannsóknir lyfjafyrirtækja til gagns. Í stefnunni er einnig fjallað um mikilvægi þess að sporna við ofnotkun þeirra lyfja sem við eigum vafasöm met í að neyta; einkum metýlfenídats. Kristján Þór segir að aukin áhersla á fagleg tengsl lækna og lyfjafyrirtækja sé ekki tilkomin vegna gruns um misbrest heldur vegna þess að aukin áhersla hefur verið lögð á þetta á alþjóðavettvangi, hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni og innan lyfjaiðnaðarins sjálfs.

Illa gengið að draga úr notkun

Hann segir að illa hafi gengið að draga úr notkun lyfsins hér á landi.

„Það er gríðarlegt verkefni sem bíður okkar í þeim efnum.“

En hvaða rök getur hann fært fyrir því að um ofnotkun sé að ræða? „Fyrir það fyrsta er það notkunin í samanburði við önnur lönd, hins vegar hafa borist ábendingar frá meðferðaraðilum um að efnin séu misnotuð í meira mæli hér en annars staðar.“

 Samkvæmt SÁÁ misnota 200-300 fíklar lyfin að staðaldri. Fjöldinn hefur verið svipaður undanfarin ár. 

Vill efla sálfræðiþjónustu

En hvað vill ráðherra gera í málunum? „Við höfum verið að beina sjónum meira í þá átt að draga inn sálgæslu inn í heilsugæsluna og hugræna atferlismeðferð meðal annars til þess að leysa af hólmi meðferð sem byggir að stærstum hluta á lyfjum. Það væri mjög æskilegt ef við gætum náð árangri í þá veru.“ 

Nú eru 15 sálfræðingar starfandi á heilsugæslustöðvum víðsvegar um landið, átta eiga að bætast við á þessu ári og 14 á næstu tveimur árum þar á eftir. Ráðherra horfir til Bretlands en þar er miðað við eitt stöðugildi sálfræðings á hverja 9000 íbúa.

Lyf sögð besta úrræðið 

Í bæklingum ADHD-samtakanna kemur fram að lyfjagjöf sé alþjóðlega viðurkennd meðferð sem gagnist fullorðnum í um 60% tilfella og börnum í 70-90% tilfella. Í bæklingi um stúlkur með ADHD er fullyrt að rannsóknir sýni að best sé að meðhöndla ADHD með metýlfenídatlyfjum, þá kemur fram að lyfið hafi engar þekktar langtímaaukaverkanir.

Á villigötum?

Er heilbrigðisráðherra á villigötum, er það stutt með rannsóknum að sálfræðimeðferð geti gagnast fólki með þessa röskun jafnvel og lyf? „Ég er nú ekki beint í færum til að svara þessu með já-i eða nei-i en mínir fagaðilar sem ég styðst við þegar við erum að ræða stefnumótun fullyrða að þessi leið sem við erum að feta okkur inn á hér gefi mjög góða raun, já.“

Þá segir Kristján nýlega rannsókn Cochrane-rannsóknarmiðstöðvarinnar sýna fram á að metýlfenídat sé ekki jafn áhrifaríkt og áður var talið. Hana þurfi ráðuneytið að skoða betur.

Lyfin hjálpi oft

Halldóra segir ráðherra ekki á villigötum. Það sé mjög mikilvægt að auka hlutdeild annarra úrræða, að fólk fái aðstoð við að halda utan um sitt daglega líf. Hins vegar sé það staðreynd að lyfin hjálpi oft. „Ef fólk er með rétta greiningu eru þessi lyf oft mjög virk og bæta lífsgæði barna og fullorðinna oft verulega.“

.

 

Mynd með færslu
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV
Spegillinn
Þessi þáttur er í hlaðvarpi