Ted Cruz sigraði Trump í Iowa

02.02.2016 - 03:58
Supporters cheer as caucus returns are reported at Republican presidential candidate, Sen. Ted Cruz, R-Texas, caucus night rally, Monday, Feb. 1, 2016, in Des Moines, Iowa. (AP Photo/Chris Carlson)
 Mynd: AP
Öldungadeildarþingmaðurinn Ted Cruz frá Texas bar sigur úr býtum í fyrsta forvali Repúblikanaflokksins, sem fram fór í Iowa í nótt. Milljarðamæringurinn Donald Trump lenti í öðru sæti en öldungadeildarþingmaðurinn Marco Rubio frá Flórida því þriðja. Sigur Cruz var stærri en búast hefði mátt við út frá skoðanakönnunum, en þær höfðu bent til nokkuð öruggs sigurs Trumps. Ekki er að efa að margir rótgrónir máttarstólpar Repúblikanaflokksins anda nú léttar.

Þrír efstu menn skiptu á milli sín ríflega þremur fjórðu hlutum atkvæða; Cruz fékk 27,6%, Trump 24,3%  og Marco Rubio 23,1%. Aðrir fengu mun minna. Ben Carson fékk 9% í fjórða sæti, Rand Paul uppskar 5% atkvæða í fimmta sætinu og Jeb Bush, sem varð sjötti, fékk aðeins 3% atkvæða. 

Þótt sigur Cruz - og ósigur Trumps - hafi komið nokkuð á óvart, er góður árangur Marcos Rubios þó líklega það sem kemur mest á óvart. Hann hafði nánast verið afskrifaður, en nú bregður svo við að hann er álitinn einn helsti sigurvegari kvöldsins og þykir til alls líklegur í framhaldinu.

Rubio er af mörgum stjórnmálaskýrendum vestra talinn eini frambjóðandi repúblikana sem getur raunverulega velgt Hillary Clinton undir uggum - fari svo að hún hafi betur en Bernie Sanders í baráttunni um að verða frambjóðandi demókrata. Bæði Cruz, sem er afar íhaldssamur og vitnar óspart í biblíuna í ræðum sínum, og Trump, þykja ekki líklegir til að heilla marga á miðju hins pólitíska litrófs vestra, sem Clinton reiðir sig mjög á. Rubio gæti hins vegar orðið henni skeinuhættur í þeim kjósendahópi. Velgengni hans í Iowa gefur honum byr undir báða vængi og líklegt má heita að honum gangi mun betur að safna fjárframlögum eftir þessa frammistöðu. 

Fréttin hefur verið uppfærð.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV