„Svo hló RÚV bara þegar ég vildi fá Pál Óskar“

Tónlistarmaðurinn Daði Freyr vinnur nú að endurhljóðblöndun á lagi keppandans sem bar sigurorð af honum í Söngvakeppninni, „Paper“ með Svölu Björgvinsdóttur.

Daði Freyr skaust upp á stjörnuhimininn fyrir óhefðbundna frammistöðu sína ásamt hljómsveitinni Gagnamagninu í keppninni í ár. Björg Magnúsdóttir heimsótti Daða Frey til Berlínar þar sem hann býr ásamt Árnýju Fjólu Ásmundsdóttur kærustu sinni og tók þau í létt spjall fyrir Síðdegisútvarpið.

Skrifar um Eurovision í lokaritgerðinni 

Daði Freyr hefur undanfarin þrjú ár lært tónlistarsköpun og upptökutækni við dBs tónlistarskólann í Berlín en er nú á lokametrunum og lýkur náminu eftir tvær og hálfa viku. „Ég er bara á fullu að klára verkefni og skrifa lokaritgerð. Ég er að skrifa um poppmenningu og samfélagsmiðla, og næ að koma Eurovision aðeins inn í hana,“ segir Daði.

Daði Freyr og gagnamagnið í úrslitum Söngvakeppninnar.

Hugmyndin að því að taka þátt í Eurovision var fyrst sett fram í gríni, svo ákvað Daði að senda lag en fá einhvern anna til að syngja það, sem hafi svo ekki gengið upp. „Svo hló RÚV bara að mér þegar ég vildi fá Pál Óskar í þetta, en áðan var ég að sjá myndband af honum upp á sviði að syngja það, svo kannski hefði hann bara verið til í það,“ segir Daði glettinn.

Mynd með færslu
 Mynd: Björg Magnúsdóttir
Daði Freyr í heimahljóðveri sínu í Berlín.

Það sem Daði hefur verið að vinna í nýlega er diskó/klúbba endurhljóðblöndun af lagi mótherja síns úr úrslitum Söngvakeppninnar, „Paper“ með Svölu Björgvinsdóttur, og hægt er að hlusta á bút úr því í viðtalinu. Á döfinni hjá honum er svo að vinna tónlist með Karítas sem vann The Voice keppnina og vinna að stuttskífu með eigin efni, ásamt því að spila á tónlistarhátíðum í sumar.

Meira en 150.000 manns hafa skoðað þegar Daði syngur Paper, nú hefur hann endurblandað lag Svölu fyrir dansgólfið.

Eftir Iceland Airwaves ætlar hann síðan að flytja til Kambódíu í hálft ár með Árnýju kærustu sinni sem er mjög spennt fyrir ferðinni: „Ég ætla að vera með svona mannfræðilegan vinkil á dvölina en Daði ætlar að kynnast tónlistarmönnunum.“ Árný lærir mannfræði við Háskóla Íslands í fjarnámi og segir alla athyglina mjög skrýtna. „Mér finnst meira segja bara fyndið að tala í þennan míkrafón sem ég tala í núna. En þetta var fyndið, ég tók dansspor en klúðraði því reyndar,“, „Já þú klúðraðir Euro!“ gellur í Daða og þau skellihlægja bæði tvö.

Horfa alltaf á Alla leið

Daði og Árný vinna mikið saman en Árný sér um alla myndbandagerð og ljósmyndun fyrir Daða, auk þess sem hann beri alltaf undir hana tónlist og fái álit. En hvernig ætla skötuhjúin að horfa á aðalkeppni Eurovision? „Við erum þegar byrjuð að undirbúa okkur, við horfum á Alla leið og gefum okkar eigin stig samhliða þáttunum. Við horfum alltaf á keppnina, það er gott djamm.“

Daði Freyr vakti mikla athygli fyrir meðhöndlun sína á Gleðibankanum.